Hin mörgu andlit Evrópusambandsins

ESBEvrópuumræður eru mikið uppáhaldsviðfangsefni stjórnmálamanna og álitsgjafa. Reglulega er kvartað úr þessum hornum yfir því að það skorti Evrópuumræðu í landinu. Þó er það ekki þannig. Það fer hér fram mikil umræða um þetta pólitíska deilumál. Á hinn bóginn er áhugi á þessum málum lítill í samfélaginu í heild. Þar er ekki við stjórnvöld að sakast. Íslendingar sjá það bara almennt ekki sem knýjandi verkefni, að ganga í Evrópusambandið. Þar er einfaldlega svo fátt sem heillar.

Hvaða Evrópusamband?

Og hvaða Evrópusamband svo sem ? Er ekki rétt að spyrja að því, líkt og ég gerði á dögunum þegar ein lota slíkrar umræðu fór fram, sem oftar. Evrópusambandið hefur nefnilega mörg andlit. Enginn getur með vissu sagt fyrir um þróun þess, þó við blasi að það muni stækka á næstu árum er fleiri ríki gömlu Austur Evrópu ganga þar inn.

Fyrir fáeinum árum hefði því almennt verið spáð að Evrópusambandið myndi í senn stækka og það þróast í átt til ríkjasambands. Nú þorir enginn að tala í þá veru. Stórnarskránni var hafnað; ekki bara af ríkjum þar sem efasemdir eru um samrunaþróun. Það er greinilega einfaldlega vaxandi efi í hugum manna vegna þessarar hugmyndafræði. Stjórnarskráin átti að leggja vörður í veginn til samruna. Því höfnuðu Evrópubúar.

Evran og myntkerfið

Athyglisvert er síðan að sjá hvernig hið sameiginlega myntkerfi hefur þróast. Forgöngumenn þess, svo sem Þjóðverjar, hafa í raun ekki getað uppfyllt hin efnahagslegu skilyrði síðustu árin og látið samþykkja fyrir sig sérreglur. Þær gilda þó ekki fyrir alla. Augljóslega átti evrópumyntin að vera hornsteinn evrópusamvinnunnar í framtíðinni. Það hefur ekki gengið eftir. Stór ríki á borð við Breta eru utan við, svo dæmi sé tekið. Það gildir líka um aðrar þjóðir okkur nátengdar, svo sem Svía og Dani. Ekkert bendir til þess að á því verði breyting. Það breytir til dæmis engu um hver úrslit næstu þingkosninga verða í Bretlandi næst. Bretar fara ekki inn í myntsamstarfið. Höfnun samrunaþróunarinnar er til skýrrar vísbendingar um að ekki sé þess að vænta að mörg ríki Evrópusambandsins hyggi á frekari vegferð í þá átt. Á því eru vitaskuld undantekningar, en megindrættirnir eru skýrir.

Schengen

Þá er rétt að minna á Schengen, enn einn anga ESB. Schengen samstarfið um vegabréfalausa Evrópu og margs konar annað samstarf, er líka til marks um hve þróun Evrópusambandsins er margbrotin og stefnir í margar áttir í rauninni. Schengen samstarfið er að eflast og fá stöðugt meiri vigt. Aðilar að Schengen eru flest ríki Evrópusambandsins, en þó ekki til dæmis Bretar eða Írar. Við Íslendingar erum þar aðilar, ásamt Norðmönnum og Lichtenstein, sem eru ásamt okkur EFTAstoð EES samkomulagsins. Þar eru líka Svisslendingar, sem eru með okkur í EFTA, en eru ekki í EES.

Vegir liggja til allra átta

Allt þetta segir okkur eitt. Evrópusamstarfið á vettvangi ESB er að verða mjög margslungið og alls ekki einfalt að sjá þar eina skýra línu. Spurningin sem við þurfum að velta upp er því alltaf hin eina og sama, áður en lengra er haldið: Hvaða Evrópusamband? Þar liggja greinilega vegir til allra átta og spurning hver ræður þeirri för, svo stuðst sé við rómaðar línur úr kveðskap Indriða G. Við gerum því best að halda áfram okkar stefnu. Vera þátttakendur í evrópusamstarfi á okkar forsendum, standa utan við Evrópusambandið, en halda áfram þeirri upplýstu almennu umræðu um evrópumál, sem meðal annars er höfð forganga um í prýðilegu samstarfi allra flokka á vettvangi Evrópustefnunefndar forsætisráðherra. Það er okkar rétta leið




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband