Tár gíraffans

Dansað í TogoPistlarnir hans Össurar Skarphéðinssonar frá ferð hans til Afríkurríkisins Togo á vegum SPES samtakanna eru með því besta sem maður les á heimasíðum. Nærfærin lýsing, góður texti og greinileg væntumþykja, hrærir við manni. Skrif hans bæta í rauninni við vídd í umfjöllun um hina hrjáðu og þjáðu heimsálfu, Afríku.

Það er sagt að annað hvort þoli fólk ekki Afríku eða hún heltaki mann. Fólk sem þar hefur dvalið lýsir þessu meðal annars svona. Og maður getur skilið hvorutveggja. Afríka með allri sinni fátækt, stjórnarfarsspillingu og vonleysi oft á tíðum, getur vakið upp í mönnum neikvæðar tilfinningar. Kannski ekki síst vegna þess að víðast er vandinn heimatilbúinn og á frekar að rekja sína rót til ills stjórnarfars en nokkurs annars. Spilltir einræðisherrar hafa leitt miklu verra af sér en nokkuð annað þar syðra og er þá langt til jafnað. Þetta sjáum við þegar við lítum til landa sem búa við fátækt en eru þó hlaðin náttúrulegum auðæfum og góðum skilyrðum. Nægir að nefna Zimbabwe í þessu sambandi.

Afríka seyðir og heillar

En Afríkar seyðir líka og heillar. Fátæktin sem mætir manni við hvert fótmál kallar beinlínis til manns. Sjálfur hef ég komið til þriggja ólíkra landa Afríku í erindagerðum mínum sem fulltrúi á fundum Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU. Ég hef heimsótt Namibíu, Marokkó og loks Burkhina Fasó. Allar voru heimsóknirnar eftirminnilegar. Og mér fannst Afríka heillandi. Löndin voru gríðarlega ólík, sem sýndi manni hve það er alltaf óskynsamlegt að tala í alhæfingarstíl um heilu heimsálfurnar. Heil eyðimörk, Sahara, skilur löndin að. Það er ekki tilviljun að víða er skírskotað til landa annars vegar norðan og hins vegar sunnan Sahara.

Suður í Namibíu

Hin arabísku áhrif og nálægðin við Evrópu leyndi sér ekki í Marokkó. Í Namibíu skildi ekki síst eftir í huganum gífurlega sterk meðvitund um hve stutt var frá því að landið var hluti aðskilnaðarstefnu Suður Afríku. Það blöstu líka eiginlega hvarvetna við manni tækifærin. Og landið naut góðs stuðnings ríkari og þróðari þjóða. Íslendingar eru í þeim hópi. Mér fannst þess vegna óskaplega gaman að skoða þá starfsemi sem Íslendingar hafa staðið fyrir suður í hafnarborginni Walvis Bay. Þar má nefna þátttöku í útgerð, uppbyggingu veiðarfæragerðar, stofnun skóla og stuðning við ungar stúlkur. Þá stóðu Íslendingar fyrir uppbyggingu flugstjórnar suður þar. Landið er fagurt, býr við náttúrufarsleg auðævi og hefur þróað stjórnarfar. Namibía er land sem á greinilega framtíðna fyrir sér.

Á landið enga von?

Það gegndi öðru máli um Burkhina Fasó. Landið er í hópi hinna fimm fátækustu eða svo í Afríku. Meirihluti kvenna er ólæs. Landið er landlukt og snautt af náttúruauðæfum. Engin innri mannvirki eru til staðar að heitið getur. Fólk ber afurðir sem það framleiðir á baki sér, býr sums staðar í strákofum og má svo áfram telja. Mér brá óneitanlega þegar ég hitti vestrænan íbúa landsins, sem sagði að í fyrirsjáanlegri framtíð yrði landið háð fjárframlögum ríkari þjóða. Og hann mælti þetta ekki af illvilja. Hann var nefnilega maður sem Afríka hafði heillað. Hún átti stóran hlut í sál hans. Það fann maður glöggt á að tala við hann. En hann mat þetta svona og stutt kynni mín af landinu gáfu mér ekki tilefni til þess að véfengja þetta álit hans. Því miður.  Engu að síður vill maður ekki trúa öðru en einnig þetta land eigi sér von. Kannski batnar ástandið þegar landsmenn geta farið að selja baðmullina sína á mörkuðum okkar hinna ríku þjóða og niðurgreiðslur bandarískra og evrópskra stjórnvalda hverfa og hætta að grafa undan atvinnustarfsemi hinna fátækustu. Það skulum við vona og leggjast á þá sveifina í  viðræðum um nýjan WTO samning.

Og fyrir mér fór eins og svo fleirum. Heimsóknin til Burkhina Fasó skildi eftir í minni sálu einhverja arfleifð og væntumþykju. Vonandi koma tímar svo að ég geti snúið þangað aftur. Mér finnst því létt að skilja hann Össur Skarphéðinsson þegar hann skrifar þessi dægrin um upplifun sína frá Afríku.

Tár gíraffans

Fyrir nokkrum árum  barst upp í mínar hendur frásögn af bókum Skota nokkurs, Alexanders McCall Smith, fæddum í Zimbabwe. Bækurnar hef ég nú lesið flestar ef ekki allar og hrifist af látlausri og góðlegri frásögn af kvenspæjaranum frú Precious Ramotswe, sem býr í Botswane. Í einni bókinni er lítil perla, frásögn, sem varpar innilegu ljósi á samfélagið  og hvernig hinir hversdagslegu atburðir hafa skírskotun til sögunnar og umhverfisins. Þetta er sagan af Frú Ramotswe og bandarísku konunni sem leitaði sonar síns sem týndist í Botswana. Þegar einkaspæjarinn frá Botswane, frú Ramotswe hafði varpað ljósi á dularfullt hvarf hans, færði hún móðurinni körfu sem hún hafi keypt hjá fátækri konu suður þar. Karfan var ofin litlum táknum. "Þetta eru tár gíraffans", sagði frú Ramotswe. "Gíraffarnir gefa konunum tár sín og þær vefa þau í körfurnar sem þær framleiða.  Og síðan  heldur sagan áfram, í lauslegri þýðingu minni:

Bandaríska konan tók kurteislega við körfunni, á þann hátt sem fólk gerir í Botswana - með báðum höndum. Hversu ruddalegt er það ekki þegar fólk tekur við gjöf með annarri hendi, líkt og það vilji hrifsa hana til sín; hún vissi betur. "Þú ert óskaplega elskuleg frú ", sagði bandaríska konan. "En segðu mér: af hverju gefa gíraffarnir tárin sín" - Frú Ramotswe yppti öxlum. Um þetta hafði hún aldrei hugsað. "Ég hugsa að þetta þýði að við getum öll gefið eitthvað", sagði hún. "Gíraffar hafa ekkert að gefa nema tárin sín"

Þetta er lærdómsrík og hugljúf saga. Og líkt og skrifin hans Össurar Skarphéðinssonar er hún tilefni til þess að hyggja aðeins að öðru en því sem er efst á baugi íslenskrar þjóðfélagsumræðu. Við höfum nefnilega öll svo gott af því að hyggja að hinum raunverulegu vandamálum heimsins.
 




Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband