27.7.2010 | 20:18
Samfylkingin sýnir örlæti sitt
Magma máli ríkisstjórnarinnar lauk með fyrirsjáanlegum hætti í þessari lotu. Málið var sett í nefnd. Það bíður betri tíma og vaknar svo upp að nýju á haustdögum sem viðfangsefni sem þarf að leysa. Þannig líða dagar ríkisstjórnarinnar. Upp koma deilumál í hverju stórmálinu á fætur öðru, krísufundir eru haldnir, slímusetur setnar og málunum smellt í nefnd til þess að vinna sér tíma.
Iðnaðarráðherrann segir lítinn ágreining hafa verið um málið. Þó liggur fyrir að þrír þingmenn VG hótuðu að slíta samband sitt við ríkisstjórnina vegna þess. Og þegar þeir hafa tjáð sig á þann veg, vita allir að í það minnsta kosti jafn stór hópur var tilbúinn til hins sama. En málinu var reddað með biðleik og nefnd; aðalsmerkjum ríkisstjórnarsamstarfsins.
Tvennt skal rifjað hér upp. Magmamenn funduðu með fulltrúum iðnaðarráðherra sem var því vitaskuld kunnugt um öll áform fyrirtækisins frá upphafi til enda. Ríkisstjórnin hafði því vitneskju um málið og gat brugðist við. Nógur var tíminn. Magmafyrirtækið hefur verið að brasa í þessum viðskiptum í heilt ár, nánast undir húsvegg stjórnarráðsins. Í öðru lagi segjast tilteknir þingmenn VG hafa allan tímann múðrað vegna þessa. Þeirra umkvartanir hafa greinilega ekki verið teknar alvarlega eða hátíðlega af ráðherrum flokksins; hvað þá ráðherrum Samfylkingarinnar.
Núna þegar Steingrímur J. Sigfússon formaður VG og fjármálaráðherra kynnir niðurstöðuna og segir hana sögulega, vaknar því óhjákvæmileg spurning og hún er þessi: En af hverju núna, hvers vegna ekki strax, þegar tækifærin lágu við fætur ríkissstjórnarinnar? Var það sökum áhuga eða viljaleysis af hálfu ráðherra VG, eða var það óttinn við Samfylkinguna sem réð athafnaleysinu?
En Samfylkingin má eiga eitt. Hún sýndi örlæti sitt að þessu sinni gagnvart samstarfsflokknum. Deiluefnið fær að fara í nefnd.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook