29.7.2010 | 23:54
Slegnir hæversku
Tveir hópar, sem oftast eru áberandi í umræðunni, eins og það er kallað, hafa verið slegnir mikilli hæversku upp á síðkastið. Svo mikilli að hvorugur hefur mátt mæla. Hvorki vinstri sinnaðir álitsgjafar né femínistar landsins hafa ekki treyst sér til að segja orð um ráðningarævintýrið á umboðsmanni skuldara eða klámfengið orðalag spunarokksins í menntamálaráðuneytinu.
Veltum síðan fyrir okkur þessu tvennu.
Skipað er í nýtt embætti umboðsmanns skuldara. Til verksins er valinn karl sem ekki hefur reynslu af neinu víðlíka, en gengið framhjá konu með áralanga starfsreynslu á þessu sviði. Allir sjá auðvitað að þetta er pólitísk ráðning. Karlinn sem fékk starfið er í Samfylkingunni og forn samverkamaður forsætisráðherrans í Þjóðvaka sáluga, en konan er óflokksbundin. Síðar kemur á daginn að hinn nýráðni hefur stofnað til skuldar við fjármálastofnun ( sem nú er raunar fallin), sem verður að afskrifa hálfan milljarð.
Hitt dæmið er af „stráklingnum“, eins og Steingrímur J. kallar aðstoðarmenn sína, þegar hann vill fría sig ábyrgð af skammarstrikum þeirra. Á meðan sá var í fæðingarorlofi, vann hann að því að spinna upp útleggingu á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í Magmamálinu og plataði í leiðinni blaðamann á virðulegu blaði í því skyni. Svo ánægður var hann með verk sitt, að hann kallaði það tussufínt.
Hvar eru nú femínistar þessa lands, þegar á einum og sama sólahringnum ráðherra sniðgengur konu við val á stjórnanda og aðstoðarmaður annars ráðherra hefur uppi klámfenginn ruddakjaft? Og hvar eru vinstri siðferðishetjurnar þegar á einum og sama sólarhringnum kemst upp um „strákling“ í spunasamsæri gagnvart almenningi og fregnir eru af skuldaafskrift hins nýráðna umboðsmanns skuldara?
Og vel að merkja. Hvar er forsætisráðherrann? Er hún hætt að hafa skoðun á svona málum?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook