5.8.2010 | 20:30
Líta þeir á almenning sem kjána?
Annað hvort eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar orðnir forstokkaðri en orð fá lýst, eða að þeir líta á almenning sem kjána. Lýsing þeirra á málum sem blasa við hverju mannsbarni eru svo gjörsamlega út í hött, en flutt af slíkri ákefð að annað hvort fyllast menn forundran, eða hlæja að vitleysunni.
Tökum þrjú dæmi:
Þegar allt óð á súðum í ríkisstjórnarsamstarfinu út af Magmamálinu, innbyrðis fjandskapur var á fullkomnu suðustigi, var sest að samningaborði á ráðherraplani. Að loknum slímusetum var málið leyst með því að setja það í nefnd. Öllum var ljóst að þetta var vandræðaleg þrautalending, sem var pínd í gegn af því að allt var af göflunum að ganga á milli stjórnarflokkana. Þegar Steingrímur J. kom hins vegar í fjölmiðla sagði hann þetta mál styrkleikapróf sem ríkisstjórnin hefði staðist! Og vitleysan heldur áfram því þessi endaleysa er nú endurtekin af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, líkt og þeir væru páfagaukar.
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra skipaði vin sinn umboðsmann skuldara. Öllum var ljóst að þetta var pólitísk ráðning. Meira að segja þingmenn í VG voru yfir sig hneykslaðir og sögðu það sem allir vissu. Þetta væri pólitísk ráðning. En ráðherrann sjálfur, talar - og virðist tala af alvöru - að um sé að ræða faglega ráðningu. Og þessa orðaleppa endurtaka síðan þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fleiri úr þeim ranni.
Og loks kom svo Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í Kastljósið í kvöld og talaði í sama dúrnum. Þó allir viti um gríðarleg átök í ríkisstjórninni um málasvið ráðherrans, lét hún sem ekkert væri og virðist aldrei hafa orðið vör við slíkt. Einnig hún talaði um, án þess að depla auga, að mannaráðningar ráðherranna væru ofurfaglegar; þar með talið ráðning á umboðsmanninum margfræga.
Eftir svona dellumakarí stendur aðeins ein spurning eftir. Eru ráðherrarnir svona forstokkaðir í fílabeinsturni ríkisstjórnarinnar, eða líta þeir á fólkið í landinu sem skilningsvana og því hægt að bjóða upp á svo fáránlegar trakteringar?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook