9.9.2010 | 16:29
Hættið að segja ósatt
Það er mikil misskilningur að ekki hafi verið mælt með einni tiltekinni leið í niðurstöðum Endurskoðunarnefndarinnar um fiskveiðistjórnun. Því hefur verið haldið fram að nefndin hafi einvörðungu skilað tilteknum valkostum, sem stjórnvöld hefðu síðan til að moða úr. Það er rangt. Mikill meirihluti nefndarmanna; raunar allir nema tveir, mæltu með svo kallaðri samningaleið.
Í áliti nefndarinnar segir, svo ekki verður um villst: Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun, aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl..
Þetta er skýr og afdráttarlaus niðurstaða. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka nema eins, völdu þessa leið og mæla með henni. Það gerðu líka allir fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi, nema einn. Sömuleiðis Starfsgreinasambandið, fulltrúar landverkafólks í sjávarútvegi, sveitarfélögin og eigendur sjávarjarða.
Það er óskiljanlegt að fólk sem ekki er vitað annað en að sé sæmilega læst, skuli þrátt fyrir þetta halda því fram að nefndin hafi ekki skilað skýrri tillögu. Menn geta að sönnu haft ýmsar skoðanir á niðurstöðunni, en það er lágmark að þeir sem ekki eru sáttir við hana, reyni ekki að ljúga upp á nefndina, eins og borið hefur á í skrifum og viðtölum í fjölmiðlum.
Er málstaðurinn virkilega svo afleitur að það sé gripið til þess óyndisúrræðis að veifa fremur röngu tré en öngvu ?
Umfjöllun mína um þetta mál og beina ívitnun í niðurstöðu nefndarinnar má lesa nánar HÉR
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook