1.10.2010 | 11:05
Samstarf byggist á trausti og heiðarleika
Á margan hátt var að þróast prýðilegt samstarf á Alþingi síðustu mánuðina í stórum og erfiðum málum. Dæmi er vinnan í Iceavemálinu, þegar ríkisstjórnin var uppgefin og við stjórnarandstæðingar tókum upp samstarf við þingmenn úr stjórnarliðinu til að hrinda af okkur alræmdum samningi Steingríms J. og Jóhönnu. Annað dæmi: Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kom með svo hraklegt frumvarp inn í þingið um málefni heimilanna, að félagsmálanefnd Alþingis ásamt starfsfólki þingsins og ráðuneytisins, máttu búa til nýtt þingmál.
Þingmannanefndin sem svo mjög hefur verið umrædd, lagði fram þingsályktunartillögu þar sem andi samvinnu þingflokka sveif yfir vötnum.
En þá dundi ógæfan yfir. Hinar ástæðulausu ákærur á hendur fjórum ráðherrum voru teknar fyrir strax í kjölfarið. Og þá birtist okkur óheiðarleikinn, undirmálin og loddaraskapurinn í sinni purkunarlausustu mynd. Tilteknir þingmenn Samfylkingarinnar sýndu alþjóð inn í sálargluggann sinn og það sem þar blasti við, líður landsmönnum seint úr minni.
Það hefur farið bylgja fordæmingar um landið vegna þessa.
Auðvitað munu slík vinnubrögð í þessu grundvallarmáli hafa áhrif á samstarf á Alþingi. Alls ekki almennt, en andrúmsloftið eitrast, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar benti á í fjölmiðlum í fyrradag.
Samstarf byggist nefnilega bæði á trausti og heiðarleika. Samstarf á Alþingi byggist ekki á niðurskrifuðum nótum, heldur trúnaði og trausti. Þegar traust er rofið, þegar óheiðarlegum vinnubrögðum er beitt, þegar loddaraskapur verður aðalsmerki manna, þá verða engar forsendur til ærlegs og nauðsynlegs samstarfs. Ekki við það fólk sem þannig vinnur. Hins vegar verður vonandi áframhaldandi samstarf og traust á milli allra hinna, sem eru sem betur fer lang flest ágætt og ærlegt fólk sem fyrirlítur þau vinnubrögð sem við urðum vitni að á Alþingi síðast liðinn þriðjudag.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook