7.10.2010 | 10:46
Samstarf ? Já, en um hvað?
Ríkisstjórnin kallar núna skyndilega eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna. Þetta er kunnuglegt stef. Svoleiðis bregst ríkisstjórnin einlæglega við þegar hana hefur rekið upp á sker, eins og ég hef rakið HÉR.
Sannarlega er þess þörf að allt gott fólk beiti kröftum sínum að því að bregðast við þeim vanda sem við er að glíma. Hjálparlaust gerir ríkisstjórnin það ekki.
En tvær spurningar vakna strax. Hin fyrri er þessi. Vill ríkisstjórnin samráð í raunveruleikanum, er þetta sýndarmennska? Hin spurningin er þá þessi. Um hvað á þetta samráð að snúast?
Sporin hræða. Ríkisstjórnin hafði það bókstaflega á stefnuskrá sinni að útiloka stjórnarandstöðuna frá samstarfi. Það var gert með því að stjórnarflokkarnir sögðu það skýrt að hvað brýnast væri að halda stærsta stjórnarandstöðuflokknum Sjálfstæðisflokknum frá áhrifum og ákvarðanatöku. Voru sem sagt á móti samstarfi á Alþingi. Þessari stefnu sinni hefur ríkisstjórnin fylgt, þó annað hafi verið svikið. Um samráð er bara að ræða þegar ríkisstjórnin er í nauðum.
Hitt dæmið er sjálfur Stöðugleikasáttmálinn. Gerður undir merkjum samráðs og samstarfs við launþega og atvinnulíf. Blekið hafði ekki þornað þegar sáttmálinn hafði verið svikinn.
Og um hvað á samráðið að snúast núna?
Eftirfarandi má meðal annars nefna:
Í fyrsta lagi um raunverulegar lausnir fyrir heimilin í landinu. Núverandi lausnir duga ekki.
Í annan stað að koma atvinnulífinu á ferð. Ríkisstjórnin gerir allt sem hún getur til að þvælast fyrir uppbyggingu í helstu útflutningsgreinum okkar, sjávarútvegi og stóriðju. Því verður að linna.
Í þriðja lagi þarf að aflétta ýmsum þeim álögum sem hafa verið settar á heimili og atvinnulíf og fara í staðinn þá leið skattlagningar séreignasparnaðar sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram.
Í fjórða lagi verður ríkisstjórnin að hætta að níðast á landsbyggðinni við niðurskurð, eins og hún markar stefnu um þessa dagana.
Og þannig mætti halda áfram.
Það þarf með öðrum orðum að snúa af leið ríkisstjórnarinnar. Ekki gera neinar minniháttar breytingar á einstökum þáttum. Það þarf miklu meira. Það þarf algjöra stefnubreytingu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook