Ringluð þjóðmálaumræða

FjárlögÞað er til marks um hversu ringluð þjóðmálaumræðan er orðin, að það er talið tíðinda þegar hið augljósa er sagt; sem sagt að ríkisstjórn sem ekki hefur vald á sínu eigin fjárlagafrumvarpi er feigðinni vígð. Egill Helgason skrifar um þetta með spekingssvip og vitnar í Mörð Árnason þingmann Samfylkingarinnar þessu til stuðnings. En kannski er Egill bara að auglýsa sjónvarpsþáttinn sinn, en þar hraut þessi mikla speki af vörum samfylkingarþingmannsins.

En mönnum er vorkunn. Fáránleikinn í þjóðmálaumræðunni er orðinn svo yfirgengilegur á köflum, að það vekur ekki athygli þegar fréttir berast af því að ríkisstjórnin hafi ekki meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu sínu.

Álfheiður Ingadóttir sagði frá því þegar hún kvaddi heilbrigðisráðuneytið og Ögmundur Jónasson fékk aðgang að ríkisstjórnarborðinu að nýju, að þessar tilfæringar væru gerðar til þess að tryggja ríkisstjórninni meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu.

Sjálfur hrökk ég við þegar ég nam þessi orð af vörum ráðherrans fráfarandi. Bæði vegna þess að þau fólu í sér að fjárlagafrumvarpið hefði verið afgreitt bersýnilega úr þingflokkum stjórnarflokkanna án nægjanlegs stuðnings á Aþingi. En einnig vegna þess að hér var lýst ótrúlegu valdabraski; ráðherrastóll í skiptum fyrir stuðning við fjárlögin.

Um þetta fjallaði ég HÉR á þessu bloggi. Annars staðar vakti það ekki athygli.

En nú er komin upp ný staða. Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta fyrir tillögum sínum um niðurskurð til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Það sást þegar sl. fimmtudag, eins og ég vakti athygli á HÉR. Enn er því fjárlagafrumvarpið í höndum hers. Þingmenn Samfylkingar jafnt og VG leggjast á árarnar með okkur í sjtórnarandstöðunni og sífellt fjölgar í liðinu.

Ráðherrakapallinn frá því í september dugði því bersýnilega ekki. Í þetta sinn er lausnin einfaldari. Hún er bara í því fólgin að ríkisstjórnin afturkalli fjárlagatillögur sínar varðandi heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband