15.10.2010 | 11:26
Kynjuð aðför - ekki kynjuð hagstjórn
Á sama tíma og ríkisstjórnin leggur fram fjárlagafrumvarp sem felur í sér uppsagnir hundruða kvenna á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, er hrint úr vör miklu verkefni sem heitir kynjuð hagstjórn. Yfirlýstur tilgangur hinnar kynjuðu hagstjórnar er að skoða efnahagsmálin út frá nýjum sjónarhóli, þar sem þarfir kvenna eru í fyrirrúmi.
Í fjárlagafrumvarpinu eru liðir í hverju ráðuneyti sem bera þetta heiti, kynjuð hagstjórn. Sums staðar eru þeir býsna vandræðalegir og bera þess merki að í ráðuneytunum hafi menn ekki almennilega haft hugmyndaflug til að láta sér detta nokkuð í hug. Verkefnin verða þess vegna hálfgerð redding, til þess að uppfylla stefnumótun ríkisstjórnarinnar. En hallærisredding sem kostar fullt af peningum.
Þetta er samt aukaatriði.
Aðalatriðið er að á sama tíma og verið er að gera sérstakt átak, til þess að reka konur úr störfum sínum á landsbyggðinni sérstaklega, þá er reynt að skreyta sig með svona verkefni.
Það er ekki nóg að festa á sig feminískar skrautfjaðrir og búa til fyrirbrigði sem heitir kynjuð hagstjórn. Það er miklu nær að varpa burtu svona sýndarmennsku á sama tíma og verið er að reka konur úr störfum sínum.
Á Sauðárkróki sl.mánudagskvöld var haldinn þúsund manna fundur til þess að mótmæla aðförinni að heilbrigðistofnuninni. Að óbreyttum munu tugir kvenna missa vinnuna sína á næsta ári vegna stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar. Þar eins og alls staðar annars staðar fannst fólki hrein móðgun í því að stæra sig af fyrirbrigði eins og kynjaðri hagstjórn í orði, en keppast svo við að reka konur úr störfum sínu þegar til stykkisins kemur.
Fyrir norðan var þetta nefnt Kynjuð aðför, en ekki kynjuð hagstjórn. Það er laukrétt.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook