18.10.2010 | 08:40
Ríkisstjórnin leysir ekki vandann, hún eykur hann
Það er sjálfsagt markmið sem ríkisstjórnin fylgir í orði kveðnu að afnema ríkissjóðshallann. Vextirnir sem við greiðum vegna hallareksturs ríkissjóðs eru blóðpeningar og nýtast betur til annarra hluta en að greiða úlendum og innlendum lánadrottnum vexti.
Vandinn er hins vegar sá að efnahagspólitík ríkisstjórnarinnar mun aldrei skila þessum árangri. Niðurskurðurinn og skattahækkanirnar eru eins og spírall, sem færir hagkerfið okkar sífellt neðar. Ástæðan er einföld. Stjórnvöld hyggja ekki að heildarmyndinni. Grundvellinum sjálfum. Atvinnuuppbyggingunni og verðmætasköpuninni. Fyrir vikið erum við föst í feni.
Frétt Ríkisútvarpsins frá því í gærkveldi var eins og útskýring þessa máls með skýru dæmi. Dæmið er svona: Icelandair ætlaði að stórauka umsvif sín á næsta ári og ráða til sín 200 starfsmenn. Þetta hefði orðið mikil búbót fyrir samfélagið allt, en ekki síst á Suðurnesjum, þar sem atvinnuástandið er verst.
En hvað gerist þá? Kemur nú ekki til skjalanna, Steingrímur Skattmann Sigfússon, með stjórnarliðana alla í einni strollu og ákveður að leggja svo mikla skatta á ferðamenn, Fríhöfnina þar með, að tvennt gerist. Ferðamenn hætta að ferðast og í stað þess að auka umsvifin, þá minnka þau. Í stað þess að ráða fólk til starfa, þarf að öllum líkindum að fækka þeim í ferðatengdri atvinnustarfsemi á Suðurnesjum.
Þessu fólki við stjórnvölinn er ekki sjálfrátt. Sé einhvers staðar lífsmark, er komið með græjurnar og slökkt á því lífsmarki. Þannig dýpkar kreppan, eins og við sjáum á hagvaxtartölunum. Tekjur ríkissjóðs lækka, það þarf að skera meira niður og hækka skatta, til þess að ríkissjóðsendarnir nái saman. Enn dýpkar svo kreppan og sagan endurtekur sig.
Þetta er með öðrum orðum vonlaust verk. Frumskilyrðið er að örva hagvöxtinn, hleypa lífi í atvinnusköpunina, hætta að þvælast fyrir. Sem sagt: Skipta um stjórnarstefnu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook