19.10.2010 | 17:41
Þetta er atlaga að fjölmenningarhugsjóninni
Sá sem hér stýrir penna var fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem við fluttum þingmenn þáverandi Vestfjarðakjördæmis um það sem við kölluðum Nýbúasetur á Vestfjörðum. Tillöguna má lesa HÉR. Texti þingsályktunartillögunnar var svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi."
Til þess að gera langa sögu stutta, var tillagan samþykkt og lagði grunninn að Fjölmenningarsetrinu á Vestfjörðum, sem um árabil hefur starfað á landsvísu, að sambærilegum markmiðum og tiltekin eru í þingsályktunartillögunni.
Fyrir okkur vakti eitt. Að tryggja góða sambúð fólks af ólíkum uppruna í okkar góða og friðsæla samfélagi.
Nú er búið að snúa þessu öllu á hvolf. Undir merkjum fjölmenningar er verið að leggja til atlögu við gömul og góð gildi og þann mikilvæga hornstein sem kristnin og kristin kirkja er í samfélagi okkar.
Þjóðkirkjan okkar heyr nú um stundir mikla varnarbaráttu og hefur orðið að takast á við mörg og erfið mál. Okkur kann að greina á um hversu vel kirkjan hefur höndlað það verkefni sitt. En það breytir ekki því að hlutverk kirkjunnar er ómetanlegt og hin kristnu gildi eru órjúfanlegur þáttur samfélags okkar, menningar og sögu. Það er ómaklegt og ódrengilegt að nýta sér erfiða stöðu kirkjunnar núna til þess að vega að þessum gildum í samfélagi okkar.
Við viljum að fólk með ólíkan bakgrunn og með ólíka trú geti lifað hér sem fyrr í góðri sátt og samlyndi. Um það hefur verið víðtæk sátt í samfélagi okkar. En frumhlaup meirihluta mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar er ekki til þess fallið.
Ekki skal í efa dreginn einlægur og góður ásetningur nefndarfólksins, en það má öllum ljóst vera að tillögur þeirra hafa ekki gert neinum gagn, fremur stuðlað að ófriði en sátt og gæti sem best orðið hvati til hleypidóma og dómhörku.
Út á það gekk ekki hugsunin um fjölmenningarsamfélagið. Meirihlutinn í mannréttindanefndinni sem kom þessu ógæfuferli af stað ætti nú þegar að kalla til baka og falla frá fyrirætlunum sínum. Í nafni fjölmenningarinnar, þó ekki væri nú fyrir annað.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook