Munar ríkið ekkert um 700 milljónir?

Það var upplýst sl. mánudag á Alþingi, ( sjá HÉR) í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá mér að gönuhlaup Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra við að afnema aflamark í rækju hafi kostað hið opinbera, skattborgara landsins, 700 milljónir króna; hvorki meira né minna. Þetta er hundrað milljónum hærri upphæð en sem nemur gjörvöllum niðurskurði til heilbrigðismála í norðvesturkjördæmi.

Ég fylgdi málinu eftir í gær fimmtudag í þinginu og spurði sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra út í þetta mál. Svar hans var einhvern veginn svona. Þetta kemur mér ekki við. Þeim var nærri þarna í Byggðastofnun að lána út á rækjuna !

Þetta er auðvitað dæmafá ósvífni. Hér talar maðurinn, sem án þess að athuga nokkuð um afleiðingarnar, afnemur aflamark í rækju, vitandi vits um að Byggðastofnun hefði þar mikla hagsmuni. Hann hafði alla möguleika að kynna sér málið hjá stofnuninni, en nennti greinilega ekki að taka upp símtólið til þess. Né heldur kynnti hann málið fyrir samráðherra sínum, iðnaðarráðherranum sem fer með málefni Byggðastofnunar.

Svo hendir hann barta hnútum að Byggðastofnun, sökudólgurinn sjálfur. Hér er öllu snúið á hvolf. Skaðvaldurinn sjálfur ræðst á þann sem fyrir tjóninu verður.

Vandséð er hvernig formaður og varaformaður stjórnar Byggðastofnunar geta setið þegjandi undir svona árásum. Og iðnaðarráðherrann verður núna að manna sig upp í að tala við kollega sinn á alvarlegu nótunum. Og hvernig bregst hann við fjármálaráðherrann, sjálfur gæslumaður ríkiskassans? Tekur hann þessu bara með þegjandi þögninni.

Því verður varla tekið með þegjandi þögninni að láta einn ráðherra komast upp með það átölulaust að henda 700 milljónum út um gluggann.

Og vel á minnst. 700 milljónir. Er það ekki merkilegt að fjölmiðlarnir blessaðir skuli nær engir láta þetta mál sig nokkru varða. Finnst þeim líkt og Jóni Bjarnasyni, að 700 milljónir af ríkisins fé, séu ekki til að gera sér rellu út af?

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband