29.10.2010 | 17:30
Ráðherra og stjórnarþingmenn ósammála fjárlagafrumvarpi
Tegundin stuðningsmaður fjárlagafrumvarpsins hlýtur að teljast í útrýmingarhættu. Við höfum þingmenn verið á fundum með sveitarstjórnum þessa vikuna og alls staðar er það sama sagan. Alls herjar fordæming á frumvarpinu, óréttlæti þess, skammsýni og einstefnunnar sem ríkisstjórnin tók með þessu plaggi, þar sem enginn var spurður álits sem málið varðaði.
En finnast þó ekki stuðningsmenn í ráðherrahópnum? Kannski, en ekki er það einhlítt.
Á fundi þingmanna Norðvesturkjördæmis með sveitarstjórnarmönnum á Patreksfirði sl. miðvikudag, voru þessi mál til umfjöllunar. Þar voru meðal annarra Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og Guðbjartur Hannesson ráðherra heilbrigðismála og félagsmála. Afstaða hins síðarnefnda hefur komið fram í fjölmiðlum.
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra þvoði hendur sínar af frumvarpinu. Hann sagði gengið of langt í niðurskurði á heilbrigðissviðinu og að forgangsröðunin væri röng. Með öðrum orðum. Hann telur að of mikið sé skorið niður og þar ofan í kaupið sé skorið niður á röngum stöðum. Sem sagt allt alveg kolómögulegt í stefnumótun í þessum umdeildasta þætti frumvarpsins. Þetta er því algjör slátrun af hálfu ráðherrans á þessu máli.
Þetta er líka athyglisvert vegna þess að stjórnarliðar segja höfund þessara tillagna vera flokkssystur ráðherrans, Álfheiði Ingadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra.
Og síðan er frásögn stjórnarliðanna úr hópi þingmanna umhugsunarverð. Þeir segjast ekkert hafa verið hafðir með í ráðum. Málin hafi ekki verið kynnt fyrir þeim. Niðurskurðartillögunum skellt fram án samráðs. Þeir hafi heldur ekki haft rænu á að spyrja um hvað stæði til né nokkuð annað og því ekki haft minnstu hugmynd um hvað til stæði.
Var ekki einu sinni talað um mikilvægi samráðs? Í þessu mikilvæga máli er það ekki einu sinni viðhaft innan stjórnarliðsins. Fyrrverandi ráðherra virðist hafa deilt og drottnað eins og einræðisherra. Og stjórnarþingmennirnir greinilega steinsofið á þingflokksfundunum.
Spurningin stendur eftir. Hver ber ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu? Hverjum er ætlað að koma því í gegn um Alþingi?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook