Í leit að hækjum og hjálparkokkum

Það kom á daginn eins og spáð var hér í gær, að markmið ríkisstjórnarinnar með tali um samráð er ekkert annað en að verða sér úti um hækju til þess að styðja sig við. Stjórnarliðið er í tætlum. Skoðanakannanir ergja mannskapinn og ríkisstjórnin hefur ekki afl til þess að ýta málum sínum áfram.

Það er öllum ljóst að ríkisstjórnin er hálfdauð og skrimtir á hræðslunni einni saman. Þá er kallað eftir samstöðu við hagsmunaaðila og stjórnarandstöðuna.

En um hvað? Því svarar Ögmundur Jónasson ráðherra þannig að ekki megi hlusta á sjónarmið Sjálfstæðisflokksins. Um það má lesa HÉR. Og þá vitum við það. Beðið er um aðstoð Sjálfstæðisflokksins, en ekki til þess að taka tillit til sjónarmiða hans. Einvörðungu að fá stuðning hans til þess að koma fram málum sem ríkisstjórnin hefur hvorki hugmyndaflug, getu né burði til. Þetta er þeirra skilgreining á samráði.

Þetta er sem sagt ekki ákall um samvinnu heldur hjálp í nauðum.

Og ætli þetta eigi ekki við um fleiri. Hvað með ósk atvinnulífs og ASÍ um að ryðja burtu hindrunum þeim ríkisstjórnin hefur lagt í götu nýrra atvinnutækifæra? Er ríkisstjórnin tilbúin til þess? Eða ætli hér eigi við hið sama og fyrri daginn; að vesæl ríkisstjórnin sé í leit að hjálparkokkum, en hlusti ekki á önnur sjónarmið en þau sem falla að kreddum ráðherranna.

Það er gott að kalla eftir samráði og samstarfi. Slíkt getur verið árangursríkt, en þá og því aðeins að það þýði stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Vandamálið í atvinnulífinu er nefnilega stefna ríkisstjórnarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband