Annað eins hefur ekki sést frá stríðslokum

Fjárfesting hefur ekki verið minni hér á landi frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þetta er til marks um þá stöðnun sem er orðið í hagkerfinu. Þetta er alvarlegt til skamms tíma, af því að þetta er vísbending um lítil umsvif, með lækkandi kaupmátt og aukið atvinnuleysi í farteskinu. En alvarlegast er þetta til lengri tíma. Lítil fjárfesting er ávísun á verri lífskjör í framtíðinni. Við getum ekki þróað atvinnulífið, við drögumst aftur úr öðrum þjóðum á tæknisviðinu. Framleiðnin minnkar og þar með versna lífskjörin.

Þetta kallast vítahringur á mannamáli.

Það þarf því engan að undra að hagspekingar séu í vandræðum með að merkja hagvöxt nema í blámóðu fjarskans.

Um þessi mál má lesa í nýjustu Peningamálum Seðlabankans, HÉR nánar tiltekið á blaðsíðu 30 til 31.

En þarf nokkurn að undra þetta? Við erum með ríkisstjórn sem stritar dag hvern við að eyðileggja alla fjárfestingarmöguleika.

Allir hafa fylgst með því hvernig allt hefur verið gert til þess að afstýra því að hér sé fjárfest í stóriðju. Kveikni einhver vonarneisti, er ríkisstjórnin mætt á svæðið með stóra slökkvibúnaðinn sinn til þess að drepa í.

Í sjávarútveginum ríkir nánast alkul í fjárfestingum. Fyrningarhótanir og krukk í fiskveiðistjórnarkerfið til þess að draga úr hagkvæmni þess,  meina mönnum bókstaflega að fjárfesta. Hið mesta sem þar sést eru nokkur pensilför á skipsskrokkum. Annað er látið bíða, enda vita menn ekki hvort þeim verði kleyft að standa undir skuldbindingum sem fjárfestingum fylgja.

Og þegar staðan er svona í stærstu útflutningsgreinunum okkar er ekki við öðru að búast en að hagkerfið sé í hlutlausum gír í besta falli.

Vandamálið er eins og fyrri daginn ríkisstjórnin lánlausa, sem nötrar og skelfur uppi í Stjórnarráði við taktfastan trumbuslátt tunnumótmælendanna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband