Sakbendingarleikur í stjórnarliðinu

Þingmenn stjórnarliðsins keppast við að þvo hendur sínar af verkum ríkisstjórnarinnar sem þeir styðja þó skilmálalaust, þegar til stykkisins kemur. Svo einkennilega sem það hljómar segja þingmenn stjórnarliðsins til dæmis þá sögu að þeir hafi ekki haft hugmynd um að það ætti að skera heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni niður við trog. Þetta getum við staðfest þingmenn sem höfum setið fundi með kollegum okkar í kjördæmaviku Alþingis.

Þegar við stjórnarandstæðingar segjum söguna eins og hún sneri að okkur, að niðurskurðaráform stjórnvalda hafi einfaldlega birst okkur í fjárlagafrumvarpinu, kl. 16 föstudaginn 1. október þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, þá segja ábyrgðarmenn ríkisstjórnarinnar; ég líka! Þetta er ekki einu sinni fyndið. Þetta er ömurlegt.

Spurningin er bara hvort þetta segi dapurlegri sögu um ráðherrana eða þingmennina. Þá fyrri vegna þess að þeir hafi blekkt þingmennina, eða um þingmennina fyrir að hafa sofið svona á verðinum.

Hvort heldur sem er, þá er þetta gróflega dapurlegt. Menn sulla framan í okkur landsmenn ákvörðunum, sem voru búnar til í einhverju pukri á bak við hurð. Þegar upp kemst um þessar ákvarðanir þá hlaupast allir frá ábyrgð sinni.

Hvort sem það nú eru þingmenn stjórnarliðsins, sem bera ábyrgð á ráðherrunum, eða ráðherrarnir sem að minnsta kosti geta ekki frýjað sig undan því að hafa vitað um ráðabruggið.

VG þingmenn og ráðherra(r) reyna varpa ábyrgðinni á óvinsælum áformum á herðar ráðherra heilbrigðismála, af því að hann er úr Samfylkingunni. Þingmenn og ráðherra(r) þess flokks senda boltann til baka og segja tillögurnar hafa orðið til í kjöltutölvu fráfarandi heilbrigðisráðherra og bornar fram í fjárlagafrumvarpi af fjármálaráðherranum. Og þarf varla að minna á þau eru bæði úr VG.

Þannig ganga hnúturnar á milli. Sakbendingaleikurinn er í fullum gangi. En fórnarlömbin í þessum ljóta leik eru íbúar landsbyggðarinnar og starfsfólk heilbrigðisstofnananna, sem ekkert hafa til sakar unnið annað en að sitja uppi með vanhæf stjórnvöld.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband