ESB umsóknin var ákveðin með ofbeldi

Nú vitum við það fyrir víst. Niðurstaðan um að sækja um aðild að ESB var ekki fengin með lýðræðislegri ákvörðun á Alþingi. Hún var knúin fram í skjóli kúgana og hótana frá forystumönnum Samfylkignarinnar, einkum frá formanni flokksins Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þetta upplýsti Ásmundur Einar Daðason þingmaður VG í umræðum á Alþingi nú áðan. Um það má lesa HÉR

Lýsing þingmannsins var nánast reyfarakennd. Forsætisráðherra dró þingmenn Vinstri grænna einn af öðrum inn í (reykfyllt?) bakherbergi og hafði í hótunum. Þingmönnunum var gerð grein fyrir því að ef þeir ekki greiddu atkvæði í samræmi við vilja hennar, þá væri ríkisstjórnarsamstarfið búið spil. Og Jóni Bjarnasyni var síðan hótað embættismissi, nema hann hlýddi.

Þannig lét forsætisráðherrann svipuhöggin dynja á hrygglengju þingmannanna, þar til nægilega margir lutu í gras og beygðu sig undir vilja svipumeistarans. Öllum var ljóst að niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni á Alþingi var plottuð. En nú liggur það fyrir að þetta plott var framkvæmt með ofbeldi.

Það er algjörlega óhugsandi annað en að Steingrímur J. Sigfússon formaður VG hafi vitað um ofbeldisverkin. Sama máli hlýtur líka að hafa gegnt um aðra forystumenn flokksins, svo sem Katrínu Jakobsdóttur varaformann flokksins  og aðra ráðherra VG. En ljóst má vera að þeir létu sér annað hvort vel líka, eða aðhöfðust ekki. Þetta er ekki síst athyglisvert.

Forystumaður í einum stjórnmálaflokki, tekur þingmenn annars flokks heljartökum og beitir pólitísku ofbeldi, en forystumaður síðarnefnda flokksins hefst ekkert að. Þetta er alveg dæmalaust.

Við höfum fengið innsýn í ljótan kima stjórnmálanna. Því var haldið fram að aðildarumsóknin væri aðferð við að leiða fram lýðræðislega afstöðu til umdeilds stórmáls. Nú vitum við betur.

Er ekki ráð, nú á tímum hinna miklu rannsókna,  að þetta mál sé upplýst að fullu? Þar er þá sjálfsagt að til séu kvaddir sérfróðir aðilar á sviði ofbeldismála.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband