12.11.2010 | 13:01
Snýst í fjóra hringi út af sama málinu
Ríkisstjórnin snýst í hringi. þetta hefur komið berlega í ljós í vandræðum hennar varðandi skuldamál heimilanna. Fjórum sinnum hafa stjórnvöld skipt um skoðun á tveimur mánuðum um hvort fella eigi niður skuldir með almennum flötum hætti.
1. Forsætis, fjármála og efnahags og viðskiptaráðherra skrifuðu undir yfirlýsingu með AGS, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að ekki komi til álita að afskrifa skuldir með almennum hætti, flatri niðurfellingu. Þetta var 13. september.
2. Í októberbyrjun opnaði forsætisráðherra hins vegar á það í panikkasti undir mótmælum og tunnuslætti við Alþingishúsið.
3. Sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar skilaði áliti sem sýndi að flata niðurfellingin væri fokdýr og skilaði takmörkuðum árangri. Þá heyrðust strax þau viðbrögð úr ríkisstjórnaherbúðunum að ekki væri sú leið fær.
4. Forsætisráðherrann kom hins vegar í forsíðuviðtal við Fréttablaðið í gær og sagði flötu niðurfellinguna ennþá á dagskrá. Þrátt fyrir niðurstöðu sérfræðinganna.
5. En í gærkveldi var ríkisstjórnin hins vegar búin að manna sig upp í að segja það sem hún meinti og hafði boðað í raun fyrir tveimur mánuðum. Flata niðurfærslan er út af borðinu.
Þessi hringlandaháttur er stórskaðlegur. Vekur upp óraunhæfar væntingar. En hann er táknmynd þess forystu og stjórnleysis sem ríkir hér á landi á meðan þessi vonlausa ríkisstjórn situr enn á rassi sínum í ráðherrastólunum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook