22.11.2010 | 20:58
VG styður ESB umsókn rétt eins og fyrr
Mikið túlkunarstríð hófst í kjölfar flokksráðsfundar Vinstri grænna, sem var haldinn nú um helgina. Textinn sem svo ákaft var rýndur af innvígðum fulltrúum úr VG var um ESB. Hörðustu andstæðingar aðildar að ESB sögðu að í raun væri verið að gera aðlögunar og umsóknarferlið að ESB óframkvæmanlegt. Öllu ferlinu væri sniðið svo þröngur rammi að málinu gæti ekki með nokkru móti undið fram. Ef menn færu að vilja fundarins.
En tónn flokksforystu VG er allur annar. Það mátti glöggt heyra á málflutningi Steingríms J. Sigfússonar formanns flokksins, þegar hann svaraði fyrirspurn Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag. Um það má lesa HÉR
Bjarni spurði m.a hvernig túlka bæri samþykkt flokksráðs VG um evrópumálin. Þó formaður VG reyndi að víkja sér undan því að svara, túlkun hans við innan um orðskrúðið. Hún er svona. Þessi samþykkt markar engin tímamót varðandi ESB málin. Málin munu halda áfram sem fyrr. það varboðskapur formanns VG.
Þar með er það afgreitt mál af hálfu VG forystunnar. Hún telur sig hafa umboð til óbreyttrar stefnu í ESB málinu. Þar er ekki að vænta neinnar stefnubreytingar. Sem staðfestir það sem hér var sagt á þessum vef í gær. VG er ESB flokkur.
Efasemdarmönnum um þessa kenningu, er því allra vinsamlegast bent á að hlusta á, eða lesa ræður formanns VG frá því í dag. Þær taka af öll tvímæli. VG er í ESB málinu á sama báti og Samfylkingin, enda bera flokkarnir jafna ábyrgð á því að aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi í fyrrasumar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook