29.11.2010 | 09:52
Af hverju kusu svona fáir?
Nú keppast menn við að reyna að útskýra hinu litlu kjörsókn um helgina vegna Stjórnlagaþingsins. Það er auðvitað sama á hvaða kvarða menn mæla. Þetta er mjög léleg kjörsókn. Svo léleg kjörsókn sendir skilaboð sem fullt tilefni er til að taka fullt tillit til.
Aumt er að lesa samsæriskenningar um kosningarnar á bloggum. Þær eiga ekki við. Fáránleiki þeirra birtist meðal annars í því að í öðru orðinu voru Sjálfstæðismenn ásakaðir um að reyna að hvetja fólk til þess að mæta og kjósa tiltekna einstakling og í hinu að hafa stuðlað að því að draga úr kjörsókn! Hvorugt á reyndar við.
Sjálfur fór ég og kaus. Í framboði var ágætis fólk sem ég treysti mjög vel til þess verkefnis sem seta á Stjórnlagaþingi er. Hinu er ekki að neita að ég hitti mjög marga sem sögðust alls ekki ætla að kjósa. Fólk úr ýmsum flokkum og flokksleysingja, sem alla jafna fer og kýs. Og hvað sögðu þeir? Ég tek það fram að þetta er ekki vísindaleg könnun, en örugglega ekki verri eða vitlausari niðurstaða en hvað annað.
Ástæðurnar sem þetta fólk gaf upp voru býsna keimlíkar og voru einhvern veginn svona. Þetta er tóm vitleysa, tímasóun, peningasóun og fáránlegt að standa í Stjórnlagaþingi á þessum tímapunkti í tilveru þjóðarinnar. Það er ekkert sem kallar á miklar breytingar á stjórnarskránni núna. Hún er ekki vandamálið sem við er að fást. Það eru til aðrar og betri aðferðir við að endurskoða Stjórnarskrána okkar. Þess vegna ætlum við ekki að taka þátt í þessari ( andsk.) vitleysu.
Einhvern veginn svona voru viðbrögð þeirra sem sögðu mér að þeir ætluðu ekki á kjörstað að þessu sinni. Jafnt við alþingismenn og þingmenn Stjórnlagaþings eigum að virða þessi sjónarmið. Jafnvel þó við kunnum að vera þeim ósammála.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook