Hvatt til ofríkis gegn Íslandi

Wikileaks fletti ofan af makki Árna Finnssonar formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands með bandarískum stjórnvöldum í fyrra. Tilgangur leynibralls hans var að fá stjórnvöld hins öfluga ríkis til þess að brjóta á bak aftur, löglegar ákvarðanir íslehvalirnskra stjórnvalda í hvalamálinu. Þetta eru mikil tíðindi og ótrúlegt að vita að fulltrúi ríkisstyrktra almannasamtaka skuli vera eins og grár köttur í sendiráði Bandaríkjanna til þess að hvetja þau til að beita íslensk stjórnvöld ofríki.

Semsagt. Íslenskur þegn, fer í nafni almannasamtaka á fundi í erlendu sendiráði til þess að hvetja til þess að það neyti aflsmunar gagnvart stjórnvöldum hér á landi. Svo einfalt er það.

Eftir þetta er augljóst að trúverðugleiki Árna Finnssonar er jafnvel orðinn minni en hann var. En það sem verra er. Trúverðugleiki Náttúruverndarsamtakanna er stórlega laskaður á meðan þessi einstaklingur er þar í forsvari.

Enn hefur ekki komið fram hvort sendiför formannsins var gerð í umboði Náttúrurverndarsamtakanna.  Allavega hafa aðrir forsvarsmenn þeirra ekki talið tilefni til þess fordæma þetta athæfi.  Á meðan sitja þeir þá einnig uppi með skömmina.

Ég tjáði mig um þetta mál í Ríkisútvarpinu, í hádegisfréttatíma, eftir að frá málinu hafði verið greint í útvarpinu daginn áður. Hér má lesa um það og hlusta á útsendingu.

Athygli vekur að málgagn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Smugan  kom þessum sálu og baráttufélaga bandarískra stjórnvalda til varnar, nær jafnskjótt og viðtalið við mig hafði birst. Er það til marks um augljósa velþóknun málgagns VG á því að menn sleiki sig upp við fulltrúa bandarískra stjórnvalda ( svo gamalt kommahugtak sé notað) til þess að fá þau til þess að beita íslensk stjórnvöld ofbeldi.

Einhvern tímann hefðu menn á vinstri bæjunum kallað svo tiltæki nöfnum, sem ekki verða endurtekin hér á þessum stað. En þetta sýnir að í VG eru menn algjörlega gengnir í björg. Rétt eins og Árni Finnsson – og Náttúruverndarsamtökin í þessu máli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband