15.12.2010 | 15:54
Já, en styður Lilja ríkisstjórnina?
Munaðarlausasta fjárlagafrumvarp í manna minnum kemur til atkvæðagreiðslu nú síðar í dag. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi kl. 16, föstudaginn 1. október. Áður en vika var liðin höfðu svo margir stjórnarliðar lýst andstöðu við meginstefnu þess, niðurskurðinn í heilbrigðismálum á landsbyggðinni, að ljóst var að þeirri stefnu yrði ekki framfylgt. Á þetta benti ég í bloggi hér á síðunnu 8. október.
Enn bætast síðan við vandræði ríkisstjórnarinnar. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis lýsti því yfir í nótt í umræðum um frumvarpið á Alþingi að hún styddi það ekki í núverandi búningi. Ásmundur Einar Daðason, fjárlaganefndarmaður VG gagnrýndi einnig mjög margt í stefnumótuninni, þó hann hafi ekki gengið jafn langt og flokkssystir hans.
Ég benti á það í umræðum og orðaskiptum mínum við Lilju að ljóst væri að fjárlögunum yrði ekki breytt úr þessu í meginatriðum. Ljóst er þess vegna að hún muni ekki standa að samþykkt þess í endanlegum búningi. Allt bendir því til þess að Lilja Mósesdóttir verði með okkur stjórnarandstæðingum í liði þegar kemur að afgreiðslu sjálfra fjárlaganna. En ekki með stjórnarliðum.
Orðaskipti okkar Lilju má sjá á Alþingisvefnum um hálf þrjú í nótt.
Nú vaknar spurningin. Styður hún ríkisstjórnina?
Fjárlög eru grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstjórna. Og ekki bara það. Þar kemur líka fram stefnan og afstaðan til stórra málaflokka, svo sem velferðarmála. Ómögulegt er að sjá að þingmaður sem ekki styður sjálf fjárlögin geti stutt ríkisstjórnina.
Smám saman er að flysjast utan af ríkisstjórninni. Hún varð að beygja af leið sinni í fjárlagagerðinni. En þrátt fyrir það nýtur hún ekki stuðnings þingmanna sinna. Og ef svo er í fjárlögunum, hvað þá með önnur hin minni mál? Og hvað þá með ríkisstjórnina sjálfa?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.12.2010 kl. 11:53 | Facebook