16.12.2010 | 23:15
Kveinstafir berast úr Stjórnarráðinu
Eitthvað óskynsamlegast sem nokkur maður getur gert er að berja höfði sínu við stein. Flestum er það síðan ljóst að sé það gert lengi og af ákefð, þá eru afleiðingarnar mjög ógæfulegar. Jafnt fyrir hausinn og það sem inni í honum er.
Þessi sannindi eru augljós og þess vegna er þetta ekki almennt tíðkað. Nema náttúrulega í forystu ríkisstjórnarinnar, sem skýrir vitaskuld ýmislegt það sem kemur úr þeim ranni.
Þetta höfum við séð í dag í fjölmiðlum í viðbrögðum ríkisstjórnarforystunnar við nýjum Icesavesamningi. Í stað þess að viðurkenna það sem allir sjá, að nýju samningsdrögin eru margfalt betri en hneykslissamningar Steingríms J. og Jóhönnu, er hausnum barið við stein og þrætt.
Fjármálaráðherra segir það ekki sanngjarnt að bera nýja samninginn saman við þann gamla. Ekki það? Fyrir hvern er það ósanngjarnt? Jú auðvitað fyrir þá sem sitja uppi með skömmina af því að ætla að koma drápsklyfjum á landsmenn, upp á 400 til 500 milljarða króna. Þess vegna kveinkar ríkisstjórnarforystan undan því að þurfa að standa reikningsskil gerða sinna.
Félagi minn Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og hagfræðingur segir að munurinn á nýju samningsdrögunum og samningum Steingríms J. og Jóhönnu sé hvorki meira né minna en 432 milljarðar. Það er því ekki að undra þó kveinstafir berist úr Stjórnarráðinu þessi dægrin
Ekki er nema tæpt ár síðan að fjármálaráðherrann gerði með svo felldum hætti grein fyrir atkvæði sínu þegar hann samþykkti á Alþingi samning sem þjóðin hafnaði svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau orð segja það sem segja þarf.
Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði og ég mæli með því að það verði samþykkt vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það sé betri kostur fyrir Ísland?
Athyglisvert er að lesa þau orð í ljósi þess sem síðar hefur gerst.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.12.2010 kl. 11:56 | Facebook