Pungspark í atkvæðagreiðslu

Hin heiftúðugu átök Vinstri grænna taka á sig ótrúlegar myndir. Þau birtast til dæmis með makalausum hætti í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið í dag, þegar Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG notaði atkvæðagreiðslu til þess að slæma slóttugu og miskunarlausu höggi á andstæðinga sína í flokknum; þingmennina þrjá sem ekki styðja fjárlög ríkisstjórnarinnar. Tilgangurinn? Jú augljóslega að kenna þeim lexíuna, vegna óþekktarinnar.

Þau þrjú, Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason lýstu því yfir við upphaf lokaatkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið að þau styddu það ekki og myndu sitja hjá við alla liði þess, þar með talið breytingartillögur. Í þessu fólst ekki efnisleg afstaða til einstakra tillagna heldur almenn yfirlýsing þeirra og andstaða við frumvarpið sjálft.

Þetta skildu allir þingmenn. Einnig Álfheiður Ingadóttir.

Hún lét sig þó ekki muna um að beita nefnda þremenninga og flokksfélaga ótrúlega lævíslegu og ótuktarlegu bragði, sem þeir munu seint gleyma. Sennilega aldrei, svo andstyggilegt var það.

Verið var að greiða atkvæði um mál sem þingið var sammála um. Fjárveitingu til að hefja á miðju næsta ári bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini. Trú yfirlýsingum sínum, þá sátu þremenningarnir hjá. Allir vissu að það var ekki vegna efasemda um þetta mál. Þetta var hluti af mótmælum þeirra við fjárlögin, sem þau hafa gert grein fyrir.

En Álfheiður lét höggin dynja þar sem hún vissi að þau yrði sárust; neðan við beltisstaðinn. Um leið og hún lauk atkvæðaskýringu sinni, sagði hún málið lýsa framsýni og fyrirhyggju og bæta á heilsu " og ég skora nú á þá fjóra þingmenn sem nú sitja hjá að greiða þessu þjóðþrifamáli atkvæði sitt", sagði hún.

Þetta gat vart verið níðangurslegra né sársaukafyllra. Hér talaði flokksfélagi til félaga sinna. Lét í það skína að þau vildu hvorki sýna framsýni, né fyrirhyggju, hvað þá bæta heilsu ungra stúlkna eða kvenna og vakti athygli á því að þau sætu hjá í þessu góða máli. Þar með var þeim stillt upp sem andstæðingum framfaramála kvenna og ungra stúlkna.

Verra gat það varla verið. Þetta var pungspark af harkalegustu sort. Lævíslegt bragð, sem sýnir að átökin í VG eru komin á þau stig að þar er engu eirt og allt telst leyfilegt. Í þessum átök þekkjast augljóslega engar leikreglur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband