12.1.2011 | 10:33
Segið okkur þá frá málefnaágreiningnum
Forystumönnum hinna stríðandi fylkinga í VG gremst að fréttamenn segi fréttir af átökum innan flokksins. Þetta hefur til dæmis komið fram hjá Steingrími J. Sigfússyni, Ögmundi Jónassyni og í skrifum á Smugunni málgagni flokksins. Stríðsherrarnir kvarta sem sagt undan fréttum af vopnaskaki þeirra.
Þetta er skiljanlegt. Það er örugglega lýjandi að standa í svona innanflokkserfjum. Jafnvel fyrir stríðsherta jálka úr innanflokksorustum hins sáluga Alþýðubandalags. Því má auðveldlega setja sig í spor fólks sem stígur út að loknum slímusetum á árangurslausum, daglöngum þingflokksfundum og fær spurningar um angrandi ágreiningsefni í flokknum sínum.
Þessum þingmönnum er hér með færðar innilegar samúðar og hluttekningaróskir af þessu tilefni.
Viðbrögðin eru öðrum þræði tilraun til þess að að breiða yfir ágreining sem blasir þó við allri þjóðinni. Það er auðvitað hlutverk stjórnmálaforingja að setja niður deilur og bera klæði á vopnin. En þetta á ekkert skylt við það. Þetta er augljós afneitun á hlut sem hver einasti Íslendingur sér dag hvern fyrir framan sig í fjölmiðlum landsins, inni á þingi, á facebooksíðum og í bloggi.
Yfirklór forystumannanna úr báðum fylkingum er þess vegna fyrst og fremst meðaumkunarvert.
Steingrímur J. lét svo fyrir viku að allar deilur væru að baki. Sú fullyrðing hélt ekki vatni út kvöldið. Þá var innihaldsleysi hennar komið í ljós.
Ögmundur kvartar yfir að í umræðunni sé athyglinni ekki nægjanlega beint að málefnum. Gott og vel. Beinum þá athyglinni þangað og spyrjum spurninga um þann grundvallarágreining sem ríkir um sjálfa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, ESB málið, Icesave, Magma málið og svo framvegis. Það er af nógu að taka þegar kemur að málefnaágreiningi innan VG og á milli ríkisstjórnarflokkanna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook