18.1.2011 | 22:46
Heimasíða í nýjum búningi
Heimasíðan mín tekur breytingum frá með þessum degi. Þessar breytingar lúta bæði að efnistökum og útliti. Tilgangurinn er að laga síðuna að nýrri tækni og skapa nýtt og aðgengilegra viðmót fyrir þann sem inn á síðuna skrifar.
Því er ekki að neita að það er nokkurt átak fyrir síðuskrifara að takast á við þessar breytingar. Miðaldra þingmaður, sem hóf að skrifa á opinberum vettvangi á síðustu öld, vopnaður gömlum ritvélarrokki, þarf að beita heilasellum af mikilli nákvæmni til þess að tileinka sér breytingarnar. Vonandi verður það þó til þess að ydda hugsunina og breikka þekkingarsviðið.
Uppistaðan á þessari síðu verður bloggið sem fyrr. Þar mun ég líkt og áður deila skoðunum mínum á málefnum dagsins. Bloggið er í rauninni málgagnið mitt. Sú breyting verður á að nú verður bloggið þannig upp sett að á forsíðunni birtist stuttur útdráttur úr efninu og meginefnið kemur svo í framhaldinu.
Pistlarnir sem voru á fyrri heimasíðu heyra nú sögunni til. Þann vettvang notaði ég æ minna og síðasta árið eða svo hefur hann verið afskiptur.
Í stað pistlanna tek ég nú upp nýjan dálk, sem ég kalla Í léttari dúr. Framtíðin mun dálítið ráða í hvað átt hann muni þróast. Ætlunin er að beita myndefninu meira og virkar í þessum dálki, textaskrifin verða styttri og það skýrir heiti hans. Þessi mál mun þó reynslan leiða betur í ljós.
Önnur sjónarmið er dálkur sem hefur alltf verið í miklu uppáhaldi hjá síðuskrifara. Þar hafa margir vaskir menn og konur skrifað fjölbreytilegar greinar. Vonandi tekst mér að efla þessi skrif. Þau hafa mælst vel fyrir og ég hef fengið góð viðbrögð á þau.
Þá er að nefna að ætlunin er, eftir því sem tæknikunnáttu minni vindur fram ( vonandi amk), að bæta við myndasafnið. Þar verða þá myndir sem vonandi geta orðið tilefni til margháttaðra skrifa í léttum dúr.
Loks er þess að geta að með nýju síðunni verður unnt að vekja athygli á efni hennar á fésbókarsíðum. Talsvert hefur verið spurt um þetta af notendum þeirrar vinsælu bókar og þeirri eftirspurn er þá svarað hér og nú.
Það er von mín að lesendum síðunnar geðjist vel að breytingunum og þær verði til þess að gera efni hennar aðgengilegra fyrir þá sem vitja skrifa minna; ýmist með því að fara með beinum hætti inn á skrif mín, í gegnum Moggabloggið, eða í gegnum þá fjölmiðla sem birta bloggskrif mín reglulega.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook