Sjávarútvegurinn er gísl ríkisstjórnarinnar

Það er stórkostlegt áhyggjuefni að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er algjörlega skilningsvana þegar kemur að kjarasamningunum sem eru framundan. Öllu snýr hún á hvolf og virðist ekki skilja einföldustu atriði sem munu snúa að ríkisvaldinu varðandi kjaramálin. Þetta kom fram í hádegisfréttum í dag.

Það veit ekki á gott. Eins og ráðherrann lætur, er ástæða til að ætla að hún og ríkisstjórnin verði þeir flækjufætur sem þvælist fyrir farsælli niðurstöðu í kjaramálum.

Þetta er það sem um er að ræða.

Samtök atvinnulífsins fóru á fund fulltrúa ríkisstjórnarinnar til þess að ræða tiltekin ramma kjaraviðræðnanna og rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Það vill einfaldlega svo til að ríkisvaldið ræður miklu um það.  Þessi rammi ræður því meðal annars hvaða svigrúm er til kjarabóta.

Þetta snýr sérstaklega að sjávarútveginum. Það mun ráðast af sjávarútvegsstefnunni hvort þessi burðaratvinnugrein þjóðarbúsins getur tekið á sig aukinn kostnað, farið í fjárfestingar og hrundið af stað bráðnauðsynlegum fjárfestingum. Þetta þarf auðvitað að liggja fyrir áður en hægt er að ljúka samningagerð. Menn skrifa ekki undir samninga nema vita hvort þeir geti staðið við þá.

Þessa ósk atvinnulífsins kallar Jóhanna tilraun til þess að taka samninga í gíslingu! Hvers konar þvæla er þetta sem oltið hefur upp úr ráðherranum.

Þessu er einmitt þveröfugt farið. Sjávarútvegurinn og raunar fleiri atvinnugreinar eru í gíslingu ríkisstjórnarinnar. Allt er í óvissu um rekstrarskilyrðin. Enginn veit hvernig fiskveiðilöggjöf framtíðarinnar á að líta út. Við vitum að vísu um farsæla niðurstöðu endurskoðunarnefndar í fiskveiðistjórnarmálum, sem vann undir forystu þingmanna stjórnarflokkanna.  En síðan ekki söguna meir, nema að stöðugt er verið hafa í hótunum með að ekkert verði með þá niðurstöðu gert.

Þannig er sjávarútveginum haldið í gíslingu. Ef áform öfgaaflanna í ríkisstjórnarflokkunum ná fram að ganga verður sjávarútvegurinn veiktur stórkostlega. Geta hans til að standa undir fjárhagsskuldbindingum sínum rýrð og möguleikarnir til að greiða betri laun stórlega skert.

Skilur forsætisráðherrann virkilega ekki svo augljóst samhengi?

Forsætisráðherra væri  nær að láta sjávarútveginn lausan úr gíslingunni, í stað þess að skaða samningsframvinduna í kjarasamningunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband