21.1.2011 | 10:03
Ekki þurfti að bíða lengi
Auðvitað þurfti ekki að bíða lengi eftir neikvæðum viðbrögðum úr ríkisstjórnaráttinni vegna hugmynda um einkarekstur á sviði heilbrigðismála. Þau viðbrögð komu fram í Morgunblaðinu í dag, fáeinum dögum eftir að greint var frá því að ætlunin væri að opna hér á landi starfsemi í ætt við heilsutengda ferðaþjónustu.
Fyrst var þessu fagnað, að vonum. Þessi starfsemi mun skapa störf og færa vel þeginn gjaldeyri inn í landið. Um slíkt hefur verið rætt mikið og við sjáum þegar vísi að svona starfsemi hér á landi.
En vandinn er sá að hér er ríkisstjórn við völd sem hryllir sig við öllum hugmyndum af þessu tagi.
Í fyrsta lagi er hér um að ræða erlenda fjárfestingu. Það heitir á máli ríkisstjórnarinnar og hennar liða, gróðabrall útlendinga og er talið afspyrnu vont og ógeðslegt. Þess vegna hafa stjórnvöld verið svona upptekin við að bregða fæti fyrir erlenda fjárfestingu eins og allir vita.
Í öðru lagi felur þessi starfsemi í sér einkarekstur á heilbrigðissviði og slíkt er sem eitur í beinum núverandi stjórnvalda. Einkarekstur og heilbrigðisþjónusta? Ekki nefna það, er viðkvæðið. Það felur í sér misrétti.
Og nú er þessu tvennu blandað saman. Erlendri fjárfestingu og einkarekstri á heilbrigðissviði. Þá er ekki von á góðu úr ríkisstjórnaráttinni. Þetta er eins hræðilegt og ríkistjórnin getur ímyndað sér.
Kannski kemur til álita að útlendingar geti sótt svona þjónustu hér á landi. En Íslendingar? Ekki til að tala um, eru viðbrögðin í morgun. Og þá kemur upp all skringileg staða.
Hér er búið að koma upp flottri i sérhæfðri heilbrigðisaðstöðu, sem er miklu ódýrari en í útlöndum. Þessa þjónustu mega útlendingar nýta sér hér á landi, en ekki Íslendingar!
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook