Þau geta ekki sameinað fleiri ráðuneyti

Það var vel viðeigandi að ráðherrar rifust í aðdraganda ríkisráðsfundar á Bessastöðum á gamlársdag. Segja má að þannig hafi liðið ár verið rammað inn af ráðherrunum, með deilum af því tagi sem hafa einkennt ríkisstjórnina svo mjög á síðasta ári.

Hér er verið að vísa til orðaskipta sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra annars vegar og forsætisráðherra og utanríkisráðherra hins vegar um áform um að sameina sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti og hirða svo út úr því síðan eitt burðarmesta verkefnið, auðlindastýringuna.

Það liggur fyrir að Jón Bjarnason er þessu mótfallinn og ítrekaði það álit sitt í grein í Morgunblaðinu á gamlársdag. Það liggja fyrir svardagar hóps þingmanna VG í sömu átt. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir létu samráðherra sinn fá það óþvegið á tröppunum á Bessastöðum á gamlársdag.

Það er til marks um að þau hafa tekið niður silkihanskana í samskiptum við órólega ráðherra og þingmenn VG. Nú verður í vaxandi mæli beitt bitmeiri vopnum.

En órólega deildin er róleg í þessu máli og getur verið það. Ríkisstjórnin ræður ekki við að sameina ráðuneytin fyrrnefndu. Því ef það gerist og Jóni Bjarnasyni verður hent út úr ríkisstjórninni, verður fjölgun í hópi hinna frjálsu villikatta í VG. Hann hefur þá meira svigrúm en hann hefur í dag sem ráðherra. Þá fyrst kæmist stjórnarmeirihlutinn í uppnám, með fjóra þingmenn utan ríkisstjórnar í órólegu deildinni.

Þess vegna mun ríkisstjórnarforystan ekki leggja í það að sameina ráðuneytin. Þó það standi í stjórnarsáttmálanum. Í þessu máli er ríkisstjórnin innikróuð, eins og HÉR hefur verið bent á. Hún kemst ekki lönd né strönd í þessu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband