Í góðsemi vegur þar hver annan

 

 

Tveggja ára afmælis ríkisstjórnarinnar, sem er í dag,  verður örugglega ekki minnst með lúðrablæstri og söng. Það er heldur ekki ástæða til. Að minnsta kosti ekki fyrir þolendurna, það er að segja þjóðina. Þeirri speki hefur verið fleytt að hver þjóð eigi skilið þau stjórnvöld sem hún kýs sér. Það á ekki við núna. Íslenska þjóðin á allt annað og betra skilið en þessi ósköp.

Ríkisstjórnin var mynduð á grundvelli óheilinda. Þannig varð ill hennar fyrsta ganga. Í fyrstu fetaði hún sín reikulu spor, studd af Framsóknarflokknum. Það sýndi strax hvað í vændum var, að þann tíma stundaði hún það einkum að blekkja og svíkja flokkinn sem forystumenn hans áttuðu sig ekki á fyrr en það var orðið um seinan.

Í kosningum vorið 2009 fengu ríkisstjórnarflokkarnir umboð til stjórnarmyndunar og söguna síðan þá þekkja flestir.

Saga ríkisstjórnarinnar hefur verið samfelld svikasaga. Má nefna öll þau fyrirheit sem svikin hafa verið í efnahagsmálum, ESB málinu, Icesave, stöðu heimilanna, atvinnulífsins, byggðamálum og áfram má telja.

Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni var efnt til pólitískra réttarhalda, þar sem svínað er á öllum eðlilegum viðmiðunum um mannréttindi og nútíma réttarfar. Þar með var mörkuð sú stefna, sem almennt þekkist ekki í lýðræðisríkjum, að pólitískt uppgjör fari fram í dómssölum, en ekki í lýðræðislegum kosningum. Og það samkvæmt reglum sem  ekki eru notaðar nokkurs staðar í réttarríki á jarðarkringlunni.

Þessi ríkisstjórn er hreinræktuð vinstri stjórn. Hún hefur öll einkenni vinstri stjórna, bara ýktari og verri. Svikabrigslin á milli fólks í stjórnarliðinu, teljast ekki lengur til tíðinda. Það líður ekki dagur að þjóðin verði ekki vitni að því að  í góðsemi vegur hver  annan;  jafnt úr launsátri sem á opinberum vettvangi. Allt traust og trúnaður er löngu fyrir bí. Slíkar ríkisstjórnir eru auðvitað löngu úr sér gengnar, en þessi lafir áfram lítilsigld.

Verst af öllu er að ríkisstjórnin er meginástæða þeirrar stöðnunar sem í efnahagsmálunum ríkir. Eins og upp úr hverjum manni stendur þessi dægrin, þá er ekkert að gerast í efnahagsmálunum. Okkur miðar ekkert áfram, við búum við samfellda stöðnun sem ekki sér fyrir endann á. Ríkisstjórnin setur fótinn fyrir alla atvinnuuppbyggingu, skapar óvissu í sjávarútvegi þegar síst skyldi og leggur nýjar og þyngri byrðar á atvinnulífið. Nú er svo komið að menn sem eiga við okkur viðskipti eru með pólitískt óvissuálag inni í forsendum sínum. Það er því ekki von á góðu.

Þannig er ríkisstjórnin orðin fyrir löngu sjálfstætt efnahagsvandamál. Forsenda þess að okkur takist að rétta úr kútnum efnahagslega er að hún fari frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband