Hrokagikkir valdsins

  

 

Ríkisstjórnin hefur sett sér ný viðmið þegar kemur að pólitískri ábyrgð. Nýjasta dæmið er frá Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem var dæmd í Hæstarétti fyrir helgina. Fyrri dæmin eru frá því þegar Hæstiréttur ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings. Viðbrögð þeirra ráðherra sem í hlut eiga eru öll eins. Yppt öxlum og svarað með hroka.

Þetta er sérlega ámælisvert í ljósi þess að umræðan síðustu misserin hefur einkennst af ákalli um skýra pólitíska ábyrgð. menn vitna mjög til þess að nauðsynlegt sé að draga rétta lærdóma af efnahagshruninu og ábyrgð því samfara. Ofangreind dæmi eru einmitt af þessum toga. Ráðherrarnir sem um ræðir kæra sig kollótta um allt þetta. þeim er sama. Þeir bregðast við eins og hrokagikkjum sæmir.

Orðhagur maður talaði einu sinni um hrokagikki valdsins. Hafi það hugtak einhvern tímann átt við, þá er það núna. Ráðherrarnir fylla þennan flokk með sann, en með litlum sóma.

Það var ekki stórmannlegt af innanríkisráðherra og forsætisráðherra að reyna að varpa ábyrgðinni af sér yfir á aðra. Í besta falli var þetta kattarþvottur. En nær sanni er að segja að þetta hafi verið enn eitt dæmið um allt það sem menn hafa viljað varast.  Hugmyndirnar sem flestir hafa um pólitíska ábyrgð eru augljósar flestum; en það á ekki við um ráðherrana.

Hlutur forsætisráðherra er sérstaklega ámælisverður. Stjórnlagaþingsmálið var númer eitt, tvö og þrjú á pólitíska ábyrgð forsætisráðherrans, sem lét þó eins og ekkert væri. Þetta er sami einstaklingur sem oftast hefur gert kröfu til pólitískrar ábyrgðar þegar  aðrir hafa átt í hlut.

Umhverfisráðherrann talar svo eins og hún sé hafin yfir lögin. Hún geti vegna pólitískrar stöðu sinnar hafið sig yfir lög og rétt. Ætla mætti að hún teldi sig þiggja vald sitt frá almættinu.

Gætum hins vegar að því að þessir ráðherrar líkt og aðrir sækja sér umboð sitt til Alþingis. Þeir sitja í krafti stuðnings stjórnarliða. Pólitíska ábyrgðin á þessum lögbrotum er því líka á herðum 35 menninganna sem  hafa líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband