Enga stæla núna!

 

 

Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands að vísa Icesavemálinu  til þjóðarinnar er að sönnu umdeild, en niðurstaða engu að síður. Hana ber því að virða. Nú er það verkefni stjórnvalda að undirbúa kosninguna eins vel og kostur er svo þjóðin geti, líkt og þingið, með yfirveguðum hætti komist að niðurstöðu í þessu umdeilda og þýðingarmikla máli.

Hlutur stjórnvalda er ærinn og líka vandasamur. Vitað er að ríkisstjórnin hefur mikla pólitíska hagsmuni og því verður vandlega fylgst með hvernig staðið verður að kynningu á málinu. En það skiptir líka gríðarlega miklu máli hvernig umgjörð kosninganna verður og hvort ekki verði örugglega tryggt að athygli þjóðarinnar geti verið óskipt á þessu máli í kosningunum.

Sporin hræða þegar kemur að því að núverandi stjórnvöld fari að annast framkvæmd kosningar. En vonandi hafa menn lært af reynslunni og að betur takist til en síðast.

Hitt er ekki síður alvarlegt að nú verið að ræða um að slengja saman við atkvæðagreiðslu um Icesave, illa skilgreindum kosningum um stjórnalagaþing.

Það væri mjög ólýðræðisleg aðferð. Icesavemálin eru margslungin. Þau krefjast þess að umræða um þau verði málefnaleg og fái fulla athygli. Það að blanda stjórnlagakosningum saman við Icesave atkvæðagreiðslu væri þess vegna ótrúlegt tiltæki og til þess eins fallið að torvelda hvorutveggja. Þannig geta stjórnvöld sem hafa lýðræði að leiðarljósi, ekki leyft sér að haga sér.

Hugmyndir af þessum toga nú eru greinilega sprottnar upp úr einhvers konar pirringi yfir því að forsetinn ákvað að synja Icesavelagasetningu Alþingis staðfestingar. Pólitískur pirringur er ekki gott föruneyti þegar teknar eru ákvarðanir í svona mikilvægum málum.

Lýðræðið útheimtir upplýsta umræðu og þátttöku almennings. Nú er hinn almenni þjóðfélagsþegn í rauninni í sömu stöðu og við þingmenn þegar við tókumst á við að móta okkur efnislega afstöðu til Icesavemálsins. Það bögglaðist fyrir okkur mörgum.  Við ættum því öðrum frekar að hafa á því skilning að íslenska þjóðin fái næði og aðstöðu til þess taka afstöðu til þessa stóra og mikilvæga máls.

Ráðin til ríkisstjórnarinnar eru því þessi, í einni setningu: Enga stæla núna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband