Flutningskostnaðurinn er allt lifandi að drepa

 

 

Ég hafði frumkvæði á Alþingi í gær að umræðu um hinn sligandi flutningskostnað, sem er allt lifandi að drepa á landsbyggðinni, eins og ég orðaði það. Innti ég Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra eftir því hvort ætlunin væri að bregðast einhvern veginn við, til dæmis með lækkun á sköttum á umferðinni, sem gæti stuðlað að lægri flutningskostnaði.

Flutningskostnaðarmálin eru ekki ný af nálinni. En þau hafa sjaldan brunnið svo heitt á landsbyggðinni og einmitt núna. Flutningskostnaður, sem var nógu hár fyrir,  hefur rokið upp vegna hækkandi eldsneytisverðs og enn eru áhrifin af hærra heimsmarkaðsverði á olíu varla komin fram í flutningstöxtum nema að hluta til. Ríkið magnar þetta svo upp með skattlagningu, en helmingur útsöluverðs á olíu og bensíni fer beint ofan í ríkiskassann. Það gerir málið svo verra að virðisaukaskattur er prósentutala, sem leggst ofan á æ hærri gjaldstofn og magnar þannig verðið upp.

Þetta þarf ekki að orðlengja. Hár flutningskostnaður skekkir samkeppnisstöðu framleiðslugreina, hvort sem það er almennur iðnaður, kjötiðnaður eða fiskiðnaður. Við höfum lesið ákall stjórnenda í þessum greinum, sem ber að taka mjög alvarlega.

Sem sagt. Það verður að bregðast við. Við skulum leggja til hliðar þrætur um hvort skattar á eldsneyti séu of háir eða lágir. Hvort eldsneytisverð sé hærra hérlendis eða erlendis. Um það snýst málið ekki. Það snýst bara um að þetta er algjörlega ólíðandi ástand.

Flutningskostnaðurinn er orðinn stórhættulegur fyrir byggðirnar. Hann mun leiða til þess að fyrirtæki á landsbyggðinni leggja upp laupana, eða þau verða flutt nær útflutnings og innflutningshöfninni í Reykjavík og þar sem stærsta markaðssvæðið er. Fólkið flytur á eftir og vítahringurinn verður óleysanlegur.

Fjármálaráðherra opnaði á það í umræðunni að nota ávinning ríkissjóðs af hærri tekjum af virðisaukaskatti af eldsneyti til þess að lækka sérstaklega flutningskostnað út á land. Undir þá hugmynd ber að taka. Þó við Steingrímur J. Sigfússon séum ósammála um margt, þá erum við þó sammála um að nota það svigrúm sem gefst með hærri tekjum af virðisaukaskatti á eldsneyti, til að lækka flutningskostnaðinn. Það verður að hafa forgang umfram annað þegar kemur að því að bregðast við afleiðingum af hærri eldsneytiskostnaði.

 

 

                                        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband