3.3.2011 | 10:57
Nú verður að vinna hratt og vel
Flestir höfðu talið að útgerð og fiskvinnsla gæti hafist að nýju á Flateyri eftir að lagt hafði verið fram tilboð í eignirnar á staðnum í síðasta mánuði. Það jók svo bjartsýnina að væntanlegir kaupendur sögðu málið í höfn og lýstu því yfir að útgerð og vinnsla hæfist innan skamms tíma.
Það urðu því ólýsanleg vonbrigði þegar öllum að óvörum kom upp sú staða sem við höfum fylgst með í fjölmiðlum. Það var auðvitað mjög slæmt að þannig fór og að málið var komið svo langt að það vekti upp væntingar heima fyrir sem rættust svo ekki.
Þetta er staðan og úr henni þurfum við að vinna, eins fljótt og örugglega og hægt er. Við getum auðvitað ekki liðið að óvissa umljúki Flateyringa; nóg er nú samt.
Mál standa svona um þessar mundir: Hinir nýju rekstraraðilar, sem þó eru ekki orðnir eigendur eigna fiskvinnslunnar, hafa byrjað atvinnustarfsemi í fiskvinnsluhúsunum og ráðið til sín starfsfólk og byrjað róðra. Skiptaráðandi hefur að ósk helsta lánadrottins auglýst eignirnar til sölu. Tilboðsfrestur er skammur, innan við tíu daga frá birtingu auglýsingarinnar. Það þýðir að tilboðsfrestur er útrunninn í lok næstu viku. Hinn skammi tilboðsfrestur segir að allir aðilar sem að málinu koma gera sér grein fyrir þýðingu þess að vinna hratt.
Nú verður verkefnið að aflétta óvissunni sem fyrst. Jafnskjótt og tilboðsfresti lýkur í lok næstu viku, verður að ganga frá málum, þannig að línur í atvinnumálum Flateyringa verði skýrar og öryggi skapist um atvinnustarfsemina. Það eru líka allar forsendur til þess að þannig geti tekist til.
Á grundvelli núgildandi laga um fiskveiðistjórnun liggja fyrir 300 tonna aflaheimildir, byggðakvóti, sem ætti að örva menn til þess að hefja útgerð og fiskvinnslu á Flateyri. Til staðar er gott fólk sem kann vel til verka. Framtíð byggðarlagsins er í húfi. Skiptaráðandi og lánadrottnar ráða för, en vitaskuld eru það hagsmunir þeirra að koma hjólum atvinnulífsins af stað sem fyrst á Flateyri. Til þess stendur örugglega þeirra vilji sem annarra.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook