3.2.2007 | 18:03
Já, en hver lagaði kaffið?
Fátt var orðið eftir sem sameinaði flokkana þrjá sem mynduðu hið svo nefnda Kaffibandalag. Um flest var rifist og mörg dæmi voru um að flokkarnir beinlínis byggju til ágreiningsefni til þess að undirstrika sérstöðu sína. Það var helst þegar kom að því að vera samferða í málþófi um RÚV að samstöðumerkin birtust. Nú sjá allir að það ævintýri allt var Samfylkingunni til mikils tjóns. Nægir bara að nefna orð Jóns Baldvins sem fór mjög háðulegum orðum um þá feigðargöngu alla saman.
Afstaða Frjálslyndra til innflytjenda hafði valdið Samfylkingu og VG miklu hugarangri. Þessi tveir flokkar höfðu lagt sig fram um að tala í þveröfuga átt við það sem Frjálslyndir hafa nú gert að stefnu sinni og kristallast í alræmdri grein Jóns Magnússonar lögmanns, nýju stjörnunnar í Frjálslynda flokknum. Hann nefndi greinina Ísland fyrir Íslendinga og kemur ýmislegt upp í hugann við það að eitt að sjá heiti skrifanna.
Steingrímur J. var með moðkennd svör þegar spurt var um stöðu flokks með svona sjónarmið innan Kaffibandalagsins. Morgunblaðið særði hann hins vegar inn á völlinn með snaggaralegum Staksteinaskrifum. Steingrímur J. átti þá enga undankomuleið; nema þá náttúrlega þögnina. En hann er þekktur af öðru en því að þegja þegar til hans er talað.
Grein hans í Morgunblaðinu sl. föstudag þar sem hann bregst við skrifum Morgunblaðsins tekur þess vegna af öll tvímæli. Hann hefur sett fram slík skilyrði gagnvart Frjálslynda flokknum að óhugsandi hlýtur að teljast að flokkur hans og Frjálslyndir eigi samleið. Hann útilokar samstarf við flokka sem gerir út á andúð í garð erlends fólks. Þarna hlýtur hann að eiga við Frjálslynda. Eða skilja menn málflutning þeirra öðruvísi en sem tortryggnistal í garð útlendinga. Út á það gengur pælingin í stefnumótuninni, með liðstyrk hins Nýja afls.
Athyglisvert er á hinn bóginn að Ingibjörg Sólrún er snöggtum loðmæltari um þessi máli í viðtali við Fréttablaðið nú í dag, laugardag. Ekki er ótrúlegt að hún verði knúin til skýrari afstöðu til þessa.
Og svo eitt að lokum. Kaffibandalagið var svo nefnt af því að formenn flokkanna þriggja sátu saman að kaffidrykkju á heimili formanns Samfylkingarinnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þeim mun meinlegri er það sem Steingrímur J. segir í grein sinni og hefur innan sviga. "Hér skal reyndar upplýst að kaffi sem verið hefur á boðstólnum á tengdum fundum hefði oft mátt vera betra, en það er önnur saga".
Það þarf ekkert að leggja út af þessum orðum formanns VG. Þau tala nægjanlega skýrt fyrir sig sjálf og eru ótrúlega níðangursleg og kaldhæðin. Og getur tilgangurinn nokkuð hafa verið annar?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook