11.3.2011 | 12:04
Þennan vítahring verður að rjúfa
Nýjar tölur um hagvöxt á Íslandi eru hrollvekjandi. Þær segja okkur að ekkert nákvæmlega ekkert sé að gerast í efnahagslífinu. Það sé ennþá við frostmark og framundan sé nákvæmlega sama stöðnunin og fyrr. Væntingar og spár um hagvöxt, sem áttu að byggja svo mjög á einkaneyslu, eru þess vegna runnar út í sandinn.
Þetta er grafalvarlegt mál. Í rauninni ættu að vera margs konar forsendur til hagvaxtar nú um þessar mundir. Lágt raungengi íslensku krónunnar ætti að öðru óbreyttu að skapa okkur tækifæri til hagvaxtar, atvinnusköpunar og nýrra möguleika sem legðu grunninn að betri lífskjörum og minnkandi atvinnuleysi. Nýjar tölur gefa ekki til kynna að slíkt sé í kortunum.
Í sjálfu sér kemur þetta þó ekki á óvart. Þessi illu tíðindi sem nú má lesa út úr hagtölum, staðfesta það sem hvarvetna heyrist úr atvinnulífinu og er álit alls almennings. Hér er stöðnun. Kannanir á væntingum stjórnenda í atvinnulífinu eru á þennan veg. Almenningur í landinu finnur þetta líka á eigin skinni og er greinilega margfalt betur að sér um stöðuna en ráðherrarnir sem klifa stanslaust á innistæðulausum tilkynningum um að hlutirnir séu að fara í rétta átt.
Við hverju er svo sem að búast? Þúsundir fyrirtækja, stór og smá, hafa ekki fengið úrlausn sinna mála í bankakerfinu. Þar er allt klossfast. Á meðan geta þau ekkert hafst að, hvorki til fjárfestinga né annarra aukinna umsvifa. Almenningur hefur verið að ganga á sparnað sinn, sem hefur haldið heimilunum á floti. Nú fer að koma að endimörkum á þeim sviðum.
Helstu útflutningsgrein okkar sjávarútvegi er haldið í spennitreyju óvissu. Þar er ekkert fjárfest. Þá er ekki von á góðu. Orkufrekur iðnaður er bannorð stjórnvalda og ekkert gengur eða rekur á þeim sviðum heldur. Sú pólitíska óvissa sem er ríkjandi eftir tveggja ára vegferð vinstri stjórnarinnar, hræðir innlenda og erlenda fjárfesta frá því að leggja fé í atvinnuuppbyggingu.
Þessi stöðnun gerir það að verkum að skattstofnar ríkisins rýrna dag hvern. Við erum komin inn í vítahring. Samdrátturinn í atvinnulífinu veldur minni skatttekjum, sem er svarað með niðurskurði og skattahækkunum, sem aftur dregur úr eftirspurn í hagkerfinu og síðan koll af kolli.
Það er þennan vítahring sem við verðum að rjúfa. Til þess skortir hins vegar allan vilja hjá ríkisstjórninni. Hennar eina leiðarljós er skattahækkanir og stefna sem leggur steina í götu atvinnulífsins. Þess vegna erum við stödd í þessum vandræðum. Sem fyrr er ríkisstjórnin helsta efnahagsmeinsemdin.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook