21.3.2011 | 22:58
Stjórnarsinnar leggjast í afneitun
Vitaskuld er það ekkert minna en áfall fyrir ríkisstjórnina þegar tveir þingmenn segja sig úr lögum við hana. Úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki VG kom á óvart og illa laskað ríkisstjórnarfleyið mátti ekki við slíku. Að sönnu teljast formlegir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar fleiri á Alþingi en stjórnarandstæðingar. Að óbreyttu getur ríkisstjórnin því varist vantrausti. En menn þurfa ekki að vera mikið eldri en tvævetur til þess að sjá og skilja að málið er miklu margslungnara.
Fyrst aðeins um viðbrögðin við tíðindum dagsins. Sumt sem þar getur að líta er alveg eftir byrjendabókinni í áróðursmálafræðunum. Tilraunin til þess að tala niður atburðinn og stöðu þingmannanna tveggja. Þingmenn, ráðherrar og blogghetjur úr Samfylkingunni hófust strax handa við að gera lítið úr því að tveir liðsmenn ríkisstjórnarinnar hafi látið af stuðningi. - Við þessu var að búast, voru viðbrögð ráðherra Samfylkingarinnar. Úr þingflokki Samfylkingarinnar voru flutt þau tíðindi að þessar fréttir hefðu ekki framkallað annað en einnnar sekúndu athygli ( bókstaflega). Svo léttvægt var þetta talið. Dyggustu stjórnarliðar í bloggheimum eru farnir að kalla eftir liðsauka.
Svona hagar fólk sér þegar það er lagst í afneitun.
Það blasir við hverjum sem vill sjá, að staða ríkisstjórnarinnar breytist. Innan borgarmúra hennar situr áfram hópur þingmanna og ráðherra, sem hafa haft sams konar efasemdir um ráðslag hennar. Þeim efasemdum hefur ekki verið eytt. Lemstruð ríkisstjórnin getur ekki skorið upp herör gegn þessum hópi. Hún á líf sitt undir áframhaldandi stuðningi hans. Við munum hve fjárlagagerðin stóð tæpt í haust. Og vegna árangursleysis ríkisstjórnarinnar, var fjárlagagerð vegna yfirstandandi árs, hreinn barnaleikur miðað við það sem bíður fjárlagavinnu fyrir næsta ár. Í ESB málum ríkir núna skammvinnur stundarfriður. Haustið mun ganga í garð með stórum ákvörðunum, þar sem byggja þarf á stuðningi þingmanna sem eru svarnir andstæðingar aðildarviðræðnanna. Nú reynir á þetta fólk. Það mun ekki eiga nema einn kost; að sýna að það hafi ekki gengið í björgin með Samfylkingunni.
Og svona í blálokin. Nú er endanlega úti ævintýrið um uppstokkun ráðuneytanna, sem svo digurbarkalega var talað um. Í það verk hefur ekki verið ráðist vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki til þess afl. Eftir þennan dag er tómt mál um slíkt að tala.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook