23.3.2011 | 23:28
Lögbrot við Lækjartorg
Í Forsætisráðuneytinu við Lækjartorg situr Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún hefur orðið uppvís að því að brjóta lög. Sá sem slíkt gerir kallast lögbrjótur, samkvæmt Íslenskri orðabók. En verst er að ráðherrann virðist forhertur. Gaf frá sér yfirlýsingu um málið og sendi aðstoðarmanninn sinn seinheppna til þess að verja gjörninginn í Kastljósinu í kvöld. Hvort tveggja var jafn óbjörgulegt; yfirlýsingin og sjónvarpsför aðstoðarmannsins.
Ósköp skiljanlegt vitaskuld. Það er ekki leggjandi á nokkurn mann að verja Jóhönnu Sigurðardóttur í þessari stöðu. Hvorki þann sem settur var í að skrifa afbötunarbréfið í dag, né þann sem fór í Kastljósið; sem allt eins víst er að hafi verið einn og sá sami.
Svona mál gátu hellst yfir nær alla ráðherra. En ekki Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur fjárfest gríðarlega á sínum pólitíska ferli í trúverðugleika sem einlæg baráttukona fyrir kvenfrelsi og bættum hag kvenna. Þegar jafnréttismálin hafa verið rædd á Alþingi þá hefur hún jafnan verið þar. Hún beitti sér fyrir því að setja mun afdráttarlausari jafnréttislög. Hún var rómuð út um öll lönd og álfur sem fyrsti kven-forsætisráðherrann. Henni var í rauninni hampað sem kvensfrelsisbarátta af holdi og blóði.
Svo þarf hún að ráða sér skrifstofustjóra og verður uppvís að því að brjóta jafnréttislögin! Þetta er í rauninni svo afkáralegt að það virðist tæplega geta verið raunverulegt. Menningarelítur og listaspírur myndu sennilega kallað þetta súrrealískt.
Nú eru lögin skýr. Jóhanna Sigurðardóttir sá um það. Hún er bundin af niðurstöðunni. Hún getur rekið þann sem hún réð og skipað umsækjandann sem hún sniðgekk í hans stað. Hún getur reynt að greiða fébætur; sent sem sagt skattborgurnum feitan reikning fyrir tiltækið. Eða hún getur reynt að fara í mál við umsækjandann. En það er líka alveg fáránlegt. Kvenfrelsisforsætisráðherra í mál við konu sem búið er að úrskurða að forsætisráðherrann hafi níðst á! Nei það er nú eiginlegra fráleitara en orð fá lýst.
Ef forsætisráðherra væri sjálfum sér samkvæmur, kæmi hann ofan í þing og tilkynnti afsögn sína. Slíks hefur Jóhanna sjálf krafist af minna tilefni. En þess er ekki að vænta af ráðherranum. Hún mun reyna að harka þetta af sér. Sýnast bljúg og sorrí í nokkra daga og halda svo áfram sem ekkert sé.
En eitt blasir við. Hinar miklu innistæður af velvild sem þessi ráðherra átti, eru nú tómar. Það er með forsætisráðherrann eins og ríkisstjórnina. Hið pólitíska tímaglas er tómt.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook