28.3.2011 | 10:06
Hráskinnaleikir eru ekki í boði
Ég tók á laugardaginn á móti áskorun tæplega eitt þúsund Vestfirðinga um vegagerð á Vestfjarðavegi 60 í Gufudalssveitinni. Þetta var magnþrungin stund og maður fann svo vel þá miklu alvöru sem á bak við áskorunina er. Í hugum þessa fólks var krafan um alvöru vegagerð nú tafarlaust, engin vinsældakeppni, heldur dauðans alvara.
Nú geta menn ekki lengur leikið einhverja tafaleiki. Fólk á sunnanverðum Vestfjörðum á einfaldlega rétt á að fá tafarlaus svör. Hráskinnaleikir í þessu máli eru ekki í boði.
Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi um að farið skuli í vegaframkvæmdir á þessu svæði, samkvæmt úrskurði þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz sem kveðinn var upp í ársbyrjun 2007. Meðflutningsmenn eru þingmennirnir Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson. Úrskurður ráðherrans var efnismikill og vandaður og tók fullt tillit til náttúrufars á svæðinu. Hæstiréttur felldi úrskurðinn hins vegar úr gildi, vegna þess að hann taldi ráðherrann ekki hafa mátt taka tillit til umferðaröryggissjónarmiða þegar niðurstaðan var fundin.
Áskorun Vestfirðinga lýtur að því að þessu máli sé veitt brautargengi þannig að fara megi í framkvæmdina. Þetta er sú umrædda framkvæmd um Þorskafjörð og Teigskóg ásamt þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Enginn vafi er á því að þetta er þýðingarmesta vegagerð í landinu um þessar mundir, sem þó hefur tafist um fjögur ár, vegna dómsmála, eins og allir vita.
Við erum núna á byrjunarreit í þessu máli, en vilji heimamanna er skýr. Sveitarfélögin á Vestfjörðum vilja að þessi leið verði farin, það hefur líka komið fram á fjölmennum íbúafundum á sunnanverðum Vestfjörðum og nú höfum við fengið áskorun þúsund Vestfirðinga, langflestra á sunnanverðum Vestfjörðum.
Nú dugir ekki að setja þetta mál í langa skoðun. Samgönguyfirvöld hafa legið yfir málinu án þess að geta komið fram með aðrar lausnir sem íbúar sætta sig við. Þess vegna er óhjákvæmilegt að höggva á hnútinn. Þeir sem ekki vilja fara þá lagasetningarleið sem við þremenningarnir leggjum til verða að leggja fram aðra kosti, skýra kosti, sem leiða til fullnægjandi lausnar á vegamálum á þessum slóðum. Þess verður að krefjast að slíkar tillögur líti dagsins ljós nú á vormánuðum. Ekki síðar.
Það er óskaplega mikið í húfi. Hið hrikalega ástand vegamálanna heldur byggðum Vestur Barðastrandasýslu í spennitreyju og er stórháskalegt fyrir byggðina.
Fagna ber yfirlýsingum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra ( ráðherra samgöngumála) um að vegagerð á Vestfjörðum eigi að njóta forgangs. Þá blasir við að fyrsta verkefnið verði að rjúfa kyrrstöðuna á Vestfjarðavegi 60 með stórtækri og viðunandi vegagerð á Vestfjarðavegi 60. Því góð meining ein og sér, enga gjörir stoð.
Sjá HÉR og HÉR ákaflega athyglisverðar greinar um þessi vegamál, sem birtust nýverið á http://www.bb.is/
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook