31.3.2011 | 09:47
Er Beina brautin lokuð allri umferð?
Því miður bendir flest til þess að vonir þær sem við bundum flest við úrlausn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki séu að verða að engu. Tvisvar sinnum hef ég tekið upp málin á þingfundum Alþingis. Þær upplýsingar sem hafa komið fram í umræðunum benda því miður til þess að framundan kunni að vera mikil gjaldþrot í atvinnulífinu, með samsvarandi uppsögnum, efnahagslegu tjóni og eignamissi fólks sem stritað hefur árum og áratugum saman í þágu atvinnurekstrar síns.
Þetta er svo grafalvarlegt að engan tíma má nú missa. Stjórnvöld verða að skerast í leikinn.
Á mánudaginn svaraði Árni Páll Árnason efnahags og viðskiptaráðherra fyrirspurn frá mér um þessi mál. Þær upplýsingar sem ráðherrann reiddi fram voru hrollvekjandi. Nokkrar staðreyndir úr ræðu hans er ástæða til þess að hafa á hraðbergi:
1. Samningur um skuldaúrslausn minni og meðalstórra fyrirtækja var undirritaður 15. desember sl. Þetta fyrirkomulag var nefnt Beina brautin og skírskotaði til þess að ætlunin væri að vinna hratt og vel.
2. Þá voru liðin ríflega tvö ár, 26 og hálfur mánuður, frá efnahagshruninu í október 2008. Að þessu samkomulagi komu fulltrúar fjármálafyrirækjanna, ríkisvaldið og atvinnulífið. Ætlað var að þetta gæti náð til fimm til sjö þúsund fyrirtækja.
3. Nú liggur ný mynd fyrir. Þessi úrræði ná ekki til fimm til sjö þúsund fyrirtækja. Talan er 1.700 fyrirtæki. Sem sagt aðeins til fjórðungs eða þriðjungs þeirra fyrirtækja sem ætlað var að ná til.
4. Hvað er þá að frétta af hinum þrjú til fimm þúsund sem ekki virðast passa inn í skapalónið sem gert hefur verið? Er staðan svona miklu betri í atvinnulífinu en menn hugðu? Tæplega.
5. Beinu brautinni var ætlað að standa til 1. júní. Þá áttu öll fyrirtæki að vera búin að fá tilboð. En hver er staðan núna? Um 350 fyrirtæki hafa fengið tilboð frá bönkunum. Ríflega 900 fyrirtæki eru í meðferð. Liðnir eru þrír og hálfur mánuður frá upphafi málsins. Tveir mánuðir eru eftir.
6. Fréttir úr atvinnulífinu herma að mikil óánægja sé með tilboð bankanna. Eigendur fyrirtækjanna margir hverjir kvarta undan því að tilboðin feli í sér afarkosti. Verði tilboðin samþykkt muni fyrirtækin ekki gera annað en að greiða alla framlegð sína til bankanna.
7. Á meðan verður engin fjárfesting. Fyrirtækin ráða ekki til sín starfsfólk. Engin atvinnusköpun sem sagt.
Beina brautin er að verða að hlykkjóttu og skrykkjóttu torleiði, þar sem ótal farartálmar eru á leiðinni. Þetta mál verður að nálgast með öðrum hætti. Gleymum því ekki að það eru einmitt þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki sem munu ráða úrslitum um hvort okkur tekst að skapa hér hagvöxt að nýju og bæta atvinnusköpunina. Hér er því ekki eftir neinu að bíða.
Sjá hlekki inn á umræður á Alþingi:
http://www.althingi.is/altext/139/03/l28165730.sgml
http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110330T142635.html
http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110330T142900.html
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook