4.4.2011 | 10:10
Eins og verur úr öðrum sólkerfum
Ríkisstjórnin er komin í þá stöðu að ekki er lengur hlustað á málflutning hennar. Slíkt haf og slíkur himinn er á milli raunveruleika almennings og fagurgala ráðherranna að hann á engan hljómgrunn hjá fólkinu í landinu. Þegar ráðherrarnir tala um að landið sé að rísa í efnahagslegu tilliti upplifir almenningur samdrátt, erfiðleika og versnandi kjör.
Það er þessi holi hljómur sem svo lengi hefur einkennt málflutnings ráðherranna og annarra þeirra sem reyna að tala máli þeirra, sem smám saman hefur molað mélinu smærra allan trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.
Í rauninni gera sér allir grein fyrir að stundaglas ríkisstjórnarinnar er löngu tæmt. Það þýðir hins vegar ekki endilega að tími hennar sé liðinn. Markmið þeirra sem verma ráðherrabekkina er bara að sitja; hvað sem það kostar.
Núverandi ríkisstjórn fékk óskabyr í upphafi hjá almenningi. Ráðherrarnir nutu trausts og höfðu svigrúm til erfiðra aðgerða. Ómarkviss niðurskurður, ofsafengnar skattahækkanir, tilraunastarfsemi gagnvart heilu atvinnugreinunum. Allt þetta var umborið í upphafi. Að sjálfsögðu í trausti þess að þetta skilaði efnahagslegum árangri.
Samdráttur hrunsins varð minni en talið var í upphafi. Viðsnúningurinn hefði því getað orðið hraðari. En sú varð ekki raunin. Stefna ríkisstjórnarinnar sá til þess. Hún dýpkaði kreppuna, jók atvinnuleysi, hrakti fleira fólk úr landi, dró úr umsvifum hagkerfisins og bjó til vítahring samdráttar, niðurskurðar og skattahækkana.
Inn í þennan veruleika birtast svo ráðherrarnir eins og marzbúar, eða verur úr öðrum sólkerfum. Þeir mála ástandið allt öðrum litum en þeim sem blasir við hverju mannsbarni. Þess vegna er ríkisstjórnin rúin trausti og trúverðugleikinn er í lágmarki.
Hér eftir hefur hún bara einn tilgang. Að sitja hvað sem það kostar og þó að það sé í óþökk almennings sem veit og skynjar að þessi slímuseta er fyrir löngu orðin þjóðinni alveg óskaplega dýrkeypt.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook