7.4.2011 | 08:00
Ákveðið er að svíkja EKKI gefin loforð
Ýmislegt jákvætt er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Annað er spunakennt og enn annað sérkennilegt. Fagna ber því sem vel er gert í yfirlýsingunni, sem horfir til atvinnusköpunar og eflingu innviða. Það er þó áhyggjuefni að veigamiklir þættir á þessum sviðum, er hugsaðir sem tímabundin átaksverkefni, en ekki lausnir til frambúðar.
Sérkennilegt er líka að sjá það kunngert að dregin sé til baka í nafni atvinnusköpunar ákvörðun um skerðingu til Öldrunarheimilisins Barmahlíðar í Reykhólasveit. Sú skerðing var auðvitað frá upphafi forkastanleg og illa ígrunduð og því blasti vitaskuld við að hverfa frá henni. Það er gott að slíkt sé gert en engin ástæða til þess að hreykja sér af svo sé gert seint og um síðir.
Við blasir að þegar kemur að Ströndum þá skilar ríkisstjórnin gjörsamlega auðu. Hvers vegna er það? Taldi ríkisstjórnin ekki tilefni til aðgerða á því landssvæði? Eða feilaði landafræðikunnáttann enn eina ferðina við ríkisstjórnarborðið?
Fagna ber yfirlýsingum um uppbyggingu hjúkrunarheimila á Ísafirði og í Bolungarvík. Þær yfirlýsingar verður að túlka sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að byggt verði upp á báðum stöðum. Þarna er vonandi verið að höggva á hnúta og taka af skarið.
Þá er ánægjulegt að farið verður í sérstakar viðbótar framkvæmdir í vegamálum upp á 350 milljónir. Það er atvinnuskapandi. Slík minni verk henta mjög vel fyrir ýmsa verktaka á landsbyggðinni sem nú eru gjörsamlega sveltir af verkefnum vegna niðurskurðar í vegaframkvæmdum ríkisins.
Einnig ber að fagna því sem sagt er um lækkun húshitunarkostnaðar og jöfnun flutningskostnaðar. Það er að sönnu loðið, líkt og verið sé að marka sér útgönguleið frá efndum í þessum málum. En slíkt verður vitaskuld ekki liðið. Yfirlýsing sem gerð er um þessi miklu hagsmunamál landsbyggðarinnar getur ekki verið liður í einhverjum klækjabrögðum. Það verður fast gengið eftir því að húshitunarksotnaður lækki á köldum svæðum og að flutningskostnaður verði jafnaður.
Hitt er hins vegar leiðinlegra að sjá ríkisstjórnina fara í gamalkunna spunagírinn sinn þegar kemur að stóru málunum í vegagerð á Vestfjörðum, eins og ég fór yfir í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Það er til skammar fyrir ríkisstjórnina að reyna að stilla málum svo upp í opinberri umræðu að þar sé verið að fara af stað með nýjar ákvarðanir. Öll þau verkefni sem nefnd eru í yfirlýsingu ríkisstjórnarfundarins á Ísafirði eru þegar ákveðin og fjármögnuð á samgönguáætlun. Jafnt vegagerð í Steingrímsfirði sem á Vestfjarðavegi 60. Það er ekki mikill mannsbragur á því að koma til fundar vestur á Ísafirði, til þess að ákveða að svíkja EKKI ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið og falið ríkisstjórninni að framkvæma. Eða er svo komið fyrir vorri þjóð að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem telur það til tíðinda þegar hún svíkur EKKI gefin og bindandi fyrirheit? Verður það svo að þegar ríkisstjórnin ætlar að standa verið gefin loforð þá verði um það gerð sérstök bókun í ríkisstjórninni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook