12.4.2011 | 11:29
Tilboð um skipspláss á skipi án haffærisskírteinis
Ríkisstjórnin er handónýt. Jafnvel hörðustu flokksmenn Vinstri grænna og Samfylkingar viðurkenna þetta. Nú er svo komið að það er líkt og að leita að nál í stórum heystakki, að reyna að finna formælanda núverandi ríkisstjórnarsamstarfs. Trúverðugleiki þess er einfaldlega horfinn.
Helst má finna talsmenn ríkisstjórnarinnar innan hennar sjálfrar; en það er þó ekki einu sinni einhlítt. Þar á bæ eru menn ósammála í stórum málum. Það er til dæmis ótrúlegt að tveir ráðherrar láta sér það vel lynda að uppi séu vangaveltur í fjölmiðlum um hvort þeir hafi stutt Icesavemálið á laugardaginn var ! En þannig er það og segir allt sem segja þarf.
Við þessar aðstæður hugsa ráðherrarnir bara um eitt. Að sitja. Þeir sitja ekki bara á stólum sínum sem fastast, heldur smella lúkum sínum utan um stólseturnar til þess að halda völdum. Þeir vita sem er að staða ríkisstjórnarinnar er eins og við blasir öllum. Við slíkar aðstæður vilja þeir fyrir alla muni halda völdum og vona að aðstæður breytist til batnaðar. Þeir vita líka sem er að velti ríkisstjórnin verða kosningar innan tíðar og þá hugsun vilja þeir ekki hugsa til enda.
Þess vegna er skyndilega komin af stað umræða um að styrkja ríkisstjórnina. Með öðrum orðum. Sú er hugsunin að innan ríkisstjórnarinnar séu veikir hlekkir, sem höggva verði frá og endurnýja með öðrum hlekkjum og sterkbyggðari.
Verði þeim að góðu.
En sjá menn ekki fáránleikann í þessu? Þetta er eins og að bjóða manni skipspláss á vélarvana báti án haffærisskírteinis, þar sem skipstjórinn og stýrimaðurinn eru daga langa í jagi við áhöfnina.
Það vita allir að lífsandi ríkisstjórnarinnar er horfinn. Það heldur henni ekkert saman nema einkadraumur Samfylkingarinnar um ESB aðild og skíthræðslan við að þurfa að standa þjóðinni reikningsskil gjörða sinna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook