Hræddir ráðherrrar hóta virkri kattasmölun

 

Vitaskuld voru viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fyrirsjáanleg, þegar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins boðaði vantrautstillögu á ríkisstjórnina. Hún bar sig mannalega og kvaðst fagna tillögunni. Hún skyldi svo sannarlega sýna að hún hefði ennþá lag á að smala köttum sínum og tryggja vantraustið.

Nú það er þá bara þannig. Þá koma smalahæfileikar þeirra Steingríms J. Sigfússonar bara í ljós.

Þessi tillaga er sett fram af mjög gefnu tilefni. Ríkisstjórnin er með allt niður um sig. Á henni ríkir fullkomið vantraust. Þjóðin treystir henni ekki, þingmennirnir flýja úr stjórnarliðinu, öllum er ljóst að stjórnin ræður ekki við hlutverk sitt. Hún er að valda hér stór skaða á samfélaginu og hamlar eðlilegri viðreisn efnahagslífsins.

Stefna ríkisstjórnarinnar veldur því beinlínis að við erum klossföst í mesta atvinnuleysi sem á Norðurlöndunum þekkist og engar horfur á að úr rætist. Þúsundir landsmanna eru að flýja land og á því er ekkert lát. Við ungu fólki sem kemur í hópum út úr háskólum með mikla þekkingu blasir það eitt, að það fær ekki tækifæri til þess að nýta þessa verðmætu þekkingu í þágu þjóðarbúsins. Aðrar þjóðir munu njóta góðs af þessum verðmætu starfskröftum unga fólksins, sem ætti að bera uppi framfarasókn samfélagsins. Ríkisstjórnin leggur hins vegar endalausar hindranir í veginn svo það fær ekki tækifæri til þess að vinna í þágu lands og þjóðar.

Svo er það allt hitt. Forsætisráðherrann brýtur jafnréttislögin sem hún hafði frumkvæði að því að setja, umhverfisráðherrann er tvídæmd fyrir dómstólum landsins fyrir að níðast á sveitarfélögum, í fyrsta skipti í lýðræðisríki eru almennar kosningar hér á landi dæmdar ógildar. Og loks. Ríkisstjórnin kemur sneypt og barin frá tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesavemálið, sem eitt og sér hefði vitaskuld átt að duga til þess að hún segði af sér.

En ráðherrarnir sitja slímusetur á ráðherrastólunum. Af því að þeir þora ekki að mæta örlögum sínum frammi fyrir þjóðinni, annars vegar. Og af því að Samfylkingunni líkar það svo vel að hafa Vinstri græna í tjóðurbandi sínu á vegferðinni til ESB.

Það er því kominn tími til að ríkisstjórnin fái að reyna á stuðning sinn á Alþingi. Og nú verður fróðlegt að sjá viðbrögð þeirra úr svo kölluðu stjórnarliði sem í orði kveðnu hafa gagnrýnt ýmis verkefni ríkisstjórnarinnar. Nú er þeirra sögulega tækifæri runnið upp til þess að standa við stóru orðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband