14.4.2011 | 09:28
Ríkisstjórnin er eins og brothætt skel
Ríkisstjórnin kemur enn laskaðri frá vantraustsumræðunum í gær. Og var þó ekki á þau ósköp bætandi. Sígild hótanapólitík forsætisráðherra sem hún beitti eins og fyrri daginn, var eins og örvæntingaröskur þess sem veit að nú sé örlagastundin runnin upp. Vanstillingarræður Steingríms J. Sigfússonar formanns VG í gær, hljóta menn að meta í ljósi þess að flokkur hans er í tætlum.
Vantrauststillagan var ekki bara nauðsynleg heldur óhjákvæmileg. Það er komið að slíkum vatnskilum í samstarfi þessara tveggja flokka í ríkisstjórninni. Fyrir aðeins þremur vikum sat hér ríkisstjórn sem hafði á bak við sig, að sögn, tiltölulegan stóran meirihluta 35 þingmanna. Vinstri grænir höfðu nýverið kokgleypt Þráin Bertelsson. Forystumenn ríkisstjórnarinnar töluðu eins og þeim væru allir vegir færir.
En lánið er fallvalt. 21. mars síðast liðinn sögðu Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sig úr þingflokki VG. Ásmundur Einar Daðason fylgdi í kjölfarið í gær. Ríkisstjórnin býr við minnsta mögulega meirihluta.
En tölurnar segja ekki einu sinni alla söguna. Inni í ríkisstjórninni sitja Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason. Þeir eru þar ekki á neinum friðarstólum. Í höndum þeirra er líf ríkisstjórnarinnar. Þeir geta ráðið því í stóru og smáu hvert ríkisstjórnin heldur. Hvort hún lifi eða deyi. Hvort ríkisstjórnin heldur áfram ESB viðræðunum eður ei.
Það vita allir að ríkisstjórnin er ekki lengur starfhæf. Meintur meirihluti hennar á Alþingi eru tölur á blaði. Hún er orðin eins og brothætt skel, sem getur hrunið saman við minnsta mótvind. Þetta leiddi vantraustsumræðan í ljós.
Vonbrigði olli hins vegar að sjá að tveir stjórnarandstöðuflokkanna klofnuðu hressilega í atkvæðagreiðslunni í gær. Fyrst í fyrri hluta atkvæðagreiðslunnar þegar einn þingmaður Framsóknarflokksins sat hjá. Og síðan með dapurlegri hætti í hinni síðari, þegar þingmenn Hreyfingarinnar og Framsóknar, tvístruðust út um alla takkana í atkvæðagreiðsluborði Alþingis. Það segir sína sögu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook