1.5.2011 | 23:30
Hversu stóran hluta sjávarútvegsins á að keyra í þrot?
Af hverju ætli það taki ríkisstjórnina átta mánuði að skrifa frumvarp um fiskveiðistjórnun? Ástæðan er einföld. Áhrifamikil öfl innan ríkisstjórnarinnar eru að reyna að svíkja það samkomulag sem varð til í endurskoðunarnefndinni sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma og kölluð hefur verið sáttanefnd.
Ef raunverulegur vilji hefði verið til staðar til þess að standa við þá niðurstöðu sem þar fékkst, hefði frumvarp verið lagt í upphafi þings í október síðast liðnum. Það frumvarp hefði getað orðið að lögum fyrir áramót, í breiðri sátt stjórnar og stjórnarandstöðu, á meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi, við sveitarfélögin og fulltrúa landverkafólks.
Nú er orðið ljóst að ekki var vilji til þess. Fyrir vikið hefur þetta mál þvælst um í reiðileysi og ekki litið dagsins ljós. Það er innan ríkisstjórnarflokkanna sem reynt er að svíkja samkomulagið. Allir aðrir vilja við það standa.
Það þarf að enn að minna á staðreyndir málsins, því stöðugt er reynt að snúa út úr og afvegaleiða.
Endurskoðunarnefndin var skipuð fulltrúum, allra þingflokka, hagsmunasamtaka útgerða, hinna minni og þeirra stærri. Öll sjómannasamtökin sátu í nefndinni. Fiskvinnslan átti þar sína fulltrúa, landverkafólkið, sveitarfélögin og eigendur sjávarjarða. Formaður nefndarinnar var Guðbjartur Hannesson núverandi velferðarráðherra. Varaformaður nefndarinnar var Björn Valur Gíslason alþingismaður, sem gjörþekkir atvinnugreinina.
Nefndin lét sérstaklega skoða þá hugmynd, sem kölluð hefur verið fyrningarleið. Útfærslan sem var skoðuð var hugmynd Samfylkingarinnar um að innkalla veiðiheimildir á tuttugu árum. Niðurstaðan var að hún myndi hafa í för með sér gjaldþrot sjávarútvegsfyrirtækja sem réðu yfir um helmingi kvótans.
Sem sagt algjört blóðbað í okkar undirstöðuatvinnugrein, með tilheyrandi atvinnumissi og byggðaröskun af stærðargráðu sem ekki hefði fyrr sést. Hún hefði haft í för með sér samþjöppun aflaheimilda frá þeim minni og veikari og til þeirra sterku og betur stæðu. Frá nýliðum til hinna grónari útgerða.
Ætli það hafi ekki verið ástæðan fyrir því fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í endurskoðunarnefndinni lögðu til samningaleið, en ekki fyrningarleið? Er núna ætlunin að svíkjast aftan að þessu fólki, trúnaðarmönnum ríkisstjórnarflokkanna í samninganefndinni og leggja fram einhvern fyrningarbastarð, til þess að þjónka hugmyndafræði sem búið er að sýna fram á að er stórskaðleg sjávarútveginum og þar með samfélaginu í heild?
Hvað gengur mönnum eiginlega til? Leiðir hatrið á útgerðarmönnum virkilega til slíkrar feigðarfarar?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook