ESB áfergja ríkisstjórnarflokkanna birtist grímulaus

  

 

Einbeittur vilji stjórnvalda um Evrópusambandsaðild er stöðugt að koma í ljós. Vinstri grænir bera kápuna á báðum öxlum. Látast vera á móti ESB aðild, en vinna hins vegar í nánu samstarfi við Samfylkinguna að því að tryggja ESB aðildina.

Nýtt og glöggt dæmi birtist okkur í síðustu viku. Þann 27. apríl var haldinn sameiginlegur fundur þingmanna nefnda Íslands og ESB ríkja þar sem til umræðu voru þættir tengdir ESB aðildinni. Fyrir fundinum lá tillaga að sameiginlegri ályktun. Ábyrgðarmenn hennar voru fulltrúar ESB ríkjanna og fulltrúar stjórnarflokkanna sem eiga sæti í nefndinni.

Sem betur fer kom fram svo megn andstaða við málið á fundinum, að því var í raun hafnað að álykta.  Tillögumenn voru því gerðir afturreka með áform sín.

Þetta mál tók ég upp á þingfundi í dag undir liðnum Störf þingsins og spurði annan fulltrúa VG í utanríkismálanefnd Alþingis um það, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Sérstaklega vakti ég athygli á landbúnaðarkaflanum í ályktunardrögunum..

Sá kafli er mjög skýr. Hann felur í sér beina ögrun við Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og aðra andstæðinga ESB innan VG..  Með öðrum orðum. Það átti að keyra þvert ofan í kok fagráðherrans hugmyndir  sem eru í hrópandi andstöðu við það sem hann vill og vilji ýmissa annarra þingmanna VG stendur til.

Í þessum drögum er Ísland hvatt til að undirbúa aðild að stefnu ESB í landbúnaðar og byggðamálum og hefja vinnu við að setja á laggirnar nauðsynlegar stofnanir sem þurfa að vera til reiðu þegar til aðildar kemur, til þess að geta hrint stefnumálum á þessum sviðum í framkvæmd og njóta þess stuðnings sem ESB aðildin hefur í för með sér.

Þetta þýðir á mæltu máli að setja á stofn Greiðslustofu, eða stofnun landbúnaðarins, en hún er skilmálalaust partur af aðlöguninni inn í Evrópusambandið og hefur verið sem eitur í beinum ESB andstæðinga í VG.

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, sagðist  á dögunum  ekki hafa þekkt til þessa máls og vísaði ábyrgðinni  á hendur forystumanna ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni. Þar hlýtur hann að vera að vísa til Árna Þórs Sigurðssonar formanns utanríkisráðherra, sem stjórnaði þingmannanefndarfundinum ásamt fulltrúa ESB.

Það er alveg ljóst að þessi ályktunardrög, eru á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna, til jafns við ESB þingmennina. Í þeim birtist okkur grímulaus tilhneiging stjórnarflokkanna til ESB aðlögunar.  Ályktunardrögin eru  óræk heimild um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband