17.5.2011 | 11:32
Skjóta fyrst og spyrja svo
Nýju fiskveiðistjórnarfrumvörpin sem eru á leið inn í þingið fá alls staðar falleinkunn. Einnig í stjórnarflokkunum. Þar á bæ eru þau lögð fram með fyrirvara um grundvallaratriði. Tvísýnt er þess vegna hvernig þeim munu reiða af. Sú óvissa bætist því ofan á þá óvissu sem efni frumvarpanna sjálfra skapar atvinnugreininni, sem hefur mátt búa við fullkomna tvísýnu um allt rekstrarumhverfi sitt frá ársbyrjun 2009.
Eitt liggur fyrir og er hafið yfir allan vafa. Verði nýju frumvörpin að lögum munu þau rýra stöðu sjávarútvegsins. Greinin verður óhagkvæmari og getur því ekki staðið undir þeim lífskjörum sem hún stuðlar að núna.
Ríkisstjórnin boðar að hagvöxtur þurfi að aukast frá því sem áætlað er. Nýju frumvörpin, verði þau samþykkt munu stuðla að hinu gagnstæða. Hagvöxtur verður minni. Ríkisstjórnin segist líka vilja stuðla að því að fjárfestingar aukist um 50%. Enginn velkist í vafa um að verði sjávarútvegsfrumvörpin að lögum, mun draga úr fjárfestingum í sjávarútvegi og tengdum greinum; og er þó ekki úr háum söðli að detta.
Í frumvarpinu er talað um að stuðla eigi að aukinni nýliðun og standa eigi vörð um einstaklingsútgerðir. Hið gagnstæða mun gerast. Ákvæði um bann við varanlegu framsali og furðuleg ákvæði um veðsetningar gerir það að verkum meðal annars, að hinir veikari verða undir. Hinir sterkari lifa fremur af. Sú ákvörðun að skerða aflahlutdeildir sérstaklega í þorski er bylmingshögg á þá sem tóku á sig aflaskerðingar, en fengju þær til baka og vonandi vel það, með stækkandi þorskstofni. Hætt er við að ýmsar útgerðir lifi það ekki af.
Það er mat þeirra sem til þekkja að frumvörpin stuðli að frekari samþjöppun í atvinnugreininni. Fyrirtæki muni í vaxandi mæli leita sameiningar og skipum og sjómönnum því fækka. Ráðherrann fær síðan því óteljandi heimildir til að grípa inn í, með víðtæku geðþóttavaldi sem honum á að afhenda á sérstöku silfurfati í boði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Þetta er óboðlegt frumvarp. Þetta er óunnið frumvarp. Þetta er frumvarp sem ekki styðst við nokkurt faglegt mat. Að því á að hyggja síðar meir.
Ríkisstjórnin hefur tileinkað sér verklag Villta vestursins. Skjóta fyrst og spyrja svo. Eru leikpersónur John Wayne orðnar að hugmyndafræðingum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að sjávarútvegsmálum?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook