23.5.2011 | 10:34
Hún hegðar sér eins og kenjóttur krakki
Það sæmir hvorki Jóhönnu Sigurðardóttur né því embætti sem hún gegnir þessi misserin, að ganga fram eins og kenjóttur krakki með hótunum. Verði ekki allt að hennar vilja þá hótar hún. Það er eitt af einkennum stjórnunarstíls hennar og hefur greinilega oft borið ágætan árangur innan ríkisstjórnarinnar. VG lyppast alltaf niður, sbr. ESB málin. Hún hefur þess vegna komist upp á lagið og beitir þessum tiktúrum sífellt og ævinlega. Það er alveg óþarft að láta hana komast upp með það.
Nú hótar hún því að sérstakt sumarþing verði kallað saman til þess að ræða frumvarps-afstyrmin í sjávarútvegsmálum sem lögð hafa verið fram. Þau eru eins og allir vita afrakstur 8 til 9 mánaða hrossakaupa ríkisstjórnarflokkanna og hafa alls staðar verið fordæmd. Sjá HÉR. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna fyrirverða sig vegna þeirra og keppast við að afneita þeim. Það er að vonum.
Ríkisstjórnin átti að leggja fram frumvörpin í lok mars, samkvæmt þingskaparlögum. Það tókst ekki vegna þess að stjórnarliðar voru svo önnum kafnir við að rífast um efni þeirra. Þau litu fyrst dagsins ljós sl. fimmtudag og hafa því ekki komist á dagskrá.
Við engan er að sakast í þessu máli nema ríkisstjórnina. Verkstjóri hennar, - að sögn,- er Jóhanna Sigurðardóttir.
Og svo er það eitt annað. Forsætisráðherrann tekur sér tilskipanavald yfir starfi Alþingis, með mjög ósvífnum hætti. Tilkynnir það á einhverjum flokksfundi suður í Keflavík hvernig hún ætlist til að Alþingi starfi. Þetta er svo ótrúleg óskammfeilni, að réttast væri að ráðherrann bæðist afsökunar. Sem betur fer búum við á Alþingi við þingforseta sem hefur sýnt og sannað að hún stendur í lappirnar og lætur ekki kúga sig.
Illa unnin sjávarútvegsfrumvörp, sem eru samin í ósætti við höfuðatvinnugrein þjóðarinnar og njóta ekki einu sinni stuðnings þingmanna ríkisstjórnarflokkanna eru auðvitað ekki á leið í einhverja harðferð í gegn um þingið. Væri til snefill af sómatilfinningu í ríkisstjórninni, yrðu frumvörpin afturkölluð hið snarasta og tekið til við að virða þá sátt sem náðist um fiskveiðistjórnarmálin í september í fyrra.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook